Miðvikudagur, 21. mars 2007
Sannleikskornum sáð
Einhver aðili vakti athygli mína á þeirri umræðu sem nú á sér stað á spjallsíðu míns ástkæra félags Knattspyrnufélagi ÍA og þá sérstaklega hvað ágætur formaður knattspyrnudeildarinnar ritar þar. "Eyþór G" vekur athygli á bágu ástandi liðsins, þ.e. lélegum úrslitum undanfarið og áhyggjum sínum yfir þeim. Nefnir að kannski hefði átt að bjóða mér og Bjarka samning fyrir komandi tímabil. Ekki ætla ég að leggja dóm á það hvort það hefði komið til að breyta einhverju næsta sumar, á góðan eða slæman hátt.
Svar Gísla formanns er hinsvegar athyglisverðara og akkúrat í þeim anda sem ég átti von á hvað mig persónulega varðar. Ég er sammála honum um allt sem fram kemur er varðar að sýna þolinmæði og að miklar breytingar eigi sér nú stað á leikmannahópnum sem koma til með að skila sér á komandi tímabilum- líkast til þó öðrum en því næsta. Sá hluti sem snýr að mér er nákvæmlega það sem ég grunaði að yrði notaður í þeirra þágu, þ.e. að mér hafi verið boðinn samningur sem ég hafnaði. Þeir hafi í raun verið allir af vilja gerðir til að halda mér en ég hafi kosið að leita á önnur mið þrátt fyrir það. Ég hef alltaf sagt að ég vildi ekki tala um það á hvaða forsendum ég ákvað að fara frá ÍA og í Þrótt nema þessi staða kæmi upp að brotthvarf mitt hefði algjörlega verið mín ákvörðun einhliða.
Sannleikurinn er sá að Guðjón Þórðarson hafði engan áhuga, ekki nokkurn á að semja við mig eða Bjarka. Eini munurinn á mér og Bjarka að ég var ekki eins tilbúinn til þess að yfirgefa ÍA eins auðveldlega og Bjarki- og Bjarki vildi vera áfram hjá ÍA bara svo það sé á hreinu. Ég reyndi ítrekað að ná í Guðjón til að fá hans skoðanir á því hvort bjóða ætti mér nýjan samning eða ekki. Hann kaus að svara ekki símtölum mínum né þeim skilaboðum sem ég skildi eftir hjá honum. Eftir ítrekaðar tilraunir sem engan árangur báru snéri ég mér að Gísla til að fá einhver svör. Gísli sagði mér þá að Guðjón væri tilbúinn að "skoða" mig og Bjarka þegar við kæmum heim í vor og meta ástand okkar og í kjölfarið myndu þeir láta okkur vita hvort samningur yrði lagður á borðið eða ekki. Þessum skilmálum var Bjarki ekki tilbúinn að mæta, enda gjörsamlega ómögulegt að taka áhættuna á því að maður fái hugsanlega samning í byrjun maí þegar öll lið eru búin að klára sín leikmannamál. Ég var sama sinnis en vildi þó reyna frekar hvort ekki væri grundvöllur fyrir því að gera samning fyrr.
Gísli sagði mér þá að það væri möguleiki að setja eitthvað saman, eitthvað sem yrði þó mun minna en ég hafði haft árið á undan. Það var ég alveg tilbúinn að skoða. Ég vil taka það fram ég hef aldrei verið á neinum stjörnusamning hjá ÍA, hef aldrei verið í samningaviðræðum per se við þá, heldur hef ég alltaf skrifað undir það sem þeir hafa talið sanngjarnt að ég fái. Ég hef oftsinnis fengið "betri" tilboð frá öðrum félögum en alltaf hafnað þeim af því að ég vildi hvergi annarsstaðar vera en á Skaganum, spilandi fyrir mitt félag. Ekki svo að skilja að ég telji að ég hefði átt að fá betri samninga en ég fékk þau ár sem ég var hjá ÍA. Ég var ánægður með það sem ég fékk.
Gísla svaraði ég í fyrstu þannig að það væri til lítils að setja saman samning áður en ég talaði við Guðjón og heyrði hans áform um hvaða hlutverki ég ætti að gegna í liðinu. Það gekk ekki eftir. Gísli nefndi þó að Guðjón hefði sagt að ég væri mjög "góður í hópi fyrir liðsandann" (?!). Ef þetta átti að merkja það að mitt hlutverk yrði að skemmta strákunum á bekknum þá hafði ég ekki mikinn áhuga á því...
Eftir slatta af símtölum og póstsendingum okkar Gísla á milli gerði hann mér tilboð þrátt fyrir að ég hefði ekki heyrt í Guðjóni eins og ég taldi forsenda allra samningaviðræðna. Ekki ætla að fara nákvæmlega út í þær tölur sem samningurinn hljóðaði upp á, það tel ég vera einum of mikið. Það sem ég vil hinsvegar segja um samningstilboðið er það að ég átti að fá ákveðna upphæð (ekki háa) ef ég yrði ég byrjunarliðinu í amk 9 leikjum. Ef það gengi hinsvegar ekki eftir þá fengi ég ekki neitt. Vitandi það að Guðjón hefði ekki mikinn áhuga á að fá mig þá hljómaði þetta ekkert alltof vel fyrir mig. Menn geta sagt að ég hafi hafnað tilboði frá ÍA en að sama skapi verða þeir sömu að sjá það að ég gat ekki tekið þessu tilboði. Og það vissu forráðamenn ÍA mætavel. Þegar ég sagði Gísla að ég gæti ekki tekið þessu tilboði þá var bara "já, ok, gangi þér vel.."
Nú er ég ekki að skrifa þennan pistil til að hnýta í neinn, síst af öllu Knattspyrnufélag ÍA né heldur Gísla. Ég og Gísli erum ágætis félagar og hann kom aldrei fram við mig í þessum viðræðum á neinn annan hátt heldur fagmannlega og heiðarlega. Ég vildi bara koma þessu á framfæri fyrst það er verið að láta það líta þannig út eins og ég hafi hafnað ÍA eftir að þeir gengu á eftir mér. ÍA vildi ekki hafa mig áfram og sýndu það greinilega. Og það er bara þannig. Guðjón er sá sem stjórnar þessu liði og hann verður auðvitað að móta það eins og hann telur best. Ég er ekkert leiður eða sár yfir því að vera farinn frá ÍA. Ég spilaði með mínu liði í 7 ár yfir 200 leiki sem er meira en ég hafði nokkru sinni látið mig dreyma um. Allt hefur sinn tíma og ég held sannast sagna að tími minn hjá ÍA hafi verið liðinn og ráð að halda á önnur mið. Ég vil hinsvegar ekki að ég sé notaður sem eitthvað dæmi um það hvernig leikmenn ÍA haldi á önnur mið eins og ekkert sé þegar liðið gæti hugsanlega nýtt krafta þeirra eitthvað áfram. Hefði ÍA virkilega viljað hafa mig áfram þá hefði ég auðvitað verið áfram. Svo einfalt er það.
Lifið heil
Um bloggið
Fréttir úr kanalandi
Myndaalbúm
Fólk
Gamla síðan
Skólinn minn
Skemmtileg lesning
Alabamafólk
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
"góður í hópi fyrir liðsandann" , Voðalega hljómar þetta eitthvað kunnuglega i minum eyrum. Finnst eins og ég hafi heyrt þessa setningu þegar ég skrifaði undir nýjan samning við Blika..Djöööööö
Ble, farinn til Spána að ''skemmta'' hópnum
Gústi (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 04:42
Þetta er vel skrifað Hjössi, þú ert góður penni. Verð að hrósa þér fyrir tryggð við Skagamenn í gegnum tíðina.
Hafsteinn Gunnarsson, 31.3.2007 kl. 15:07
Kærar þakkir fyrir það félagi. I appreciate it eins og við segjum hér í kanalandi ;)
Hjörtur Júlíus Hjartarson, 3.4.2007 kl. 04:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.