El Gordo

Jæja, eitt og annað hefur á daga oss drifið undanfarið.

Ég og Óli naut erum búnir að bóka miða til Spánar í æfingaferðina hjá röndótta stórveldinu úr Laugardalnum. Leggjum af stað um hádegisbilið, 17.apríl frá Montgomery og komum heim níu dögum seinna. Alls eru þetta fjögur flug hvora leið; MGM-Atlanta-Madrid-Alicante. Ferðalagið tekur hátt í sólahring með öllu sem er í það mesta til þess að maður nenni að standa í þessu yfirleitt. Það er einungis sú staðreynd að ég verð að mæta í þessa ferð til að komast í almennilegan bolta, með góðum leikmönnum en það er ekki um auðugan garð að gresja þessa dagana hjá knattspyrnuliði AUM. Ungir Ameríkanar skipa hópinn að stærstum hluta nú um stundir þar sem 80 prósent af byrjunarliðinu frá í fyrra er horfið á önnur mið af ýmsum ástæðum. Þó holdarfarið sé í ágætu standi miðað við árstíma þá sá Kiddi bró ástæðu til að slá um sig með spænskukunnáttu sinni og um leið skjóta á mig (á uppbyggilegan hátt að sjálfsögðu). El Gordo heyrðist hinumegin á línunni þegar ég svaraði og eftir mikið smápjötlutíst gubbaði Kiddi því útúr sér að þessi spænsku orð útleggjast á íslensku "sá feiti"...Oft hefur tilefnið verið meira til að nota þess orð heldur en nú, engu að síður þarf aðeins að spýta í lófana þessar sex vikur sem enn eru í mót. Að auki verð ég að fara læra nöfnin á nýju liðsfélögum mínum, gekk ekki alveg nógu um vel jólin af einhverjum ástæðum.

 

Fékk þær gleðifregnir um helgina að von sé á gestum til mín á útskriftardaginn. Hjörtur og Stína (aka ma og pa) ætla leggja Ameríku undir fót í annað sinn á lífsleiðinni og fylgjast með einkasyninum taka við langþráðri gráðu. Aukinheldur ætlar ástkær amma mín að "skutlast" yfir hafið með þeim. Ég hef "suðað" í ömmu í fjögur ár að koma og heimsækja mig hingað út og núna verður af því, mér til mikillar gleði- svo vægt sé til orða tekið. Hjördís mín er þó heldur vonsvikin yfir því að "litli" bróðir, Hákon kemur ekki sökum anna í FVA.

 

AUM spilaði tvo leiki um helgina. Reyndar voru þeir ekki nema klukkutíma hvor en allt heppnaðist þetta ágætlega. Liðin sem við mættum voru heldur slök, undir eðlilegum kringumstæðum, með fullskipað lið, hefðum við unnið með 5-6 mörkum í það minnsta. Í staðinn enduðu leikirnir báðir leikirnir með jafntefli, 2-2 sá fyrri og 1-1 sá seinni. Ég skoraði bæði í fyrri leiknum, það seinna með því að fylgja eftir eigin vítaspyrnu. Veit ekki hvað er að gerast í þeim málum...Seinni leikurinn var nokkuð skrautlegur. Lentum snemma 1-0 undir og áttum í stökustu vandræðum það sem eftir var. Undir lok leiksins fékk undirritaður að líta rauða spjaldið fyrir litlar sem engar sakir ;) Manni færri tókst AUM liðinu að skora og var það mark ekki af lakari taginu. Hallgrímur, sem alla jafnan eru mislagðir fætur, skoraði af hvorki meira né minna en 55 metra færi! Hann sagði sjálfur að hann hefði séð markmanninn standa ögn of framarlega þegar boltinn kom skoppandi til hans við miðlínuna. Það var því ekkert annað að gera en að "láta vaða" með fyrrgreindum afleiðingum. Boltinn skoppaði svona laglega yfir markvörðinn áður en hann endaði í netinu. Snilldarmark!

 

Þrennir tónleikar framundan. Já, nú skal síðustu stundirnar mjólkaðar til hins ýtrasta. The Decemberists ríða á vaðið innan skamms, því næst er það gamla kempan Elton John og til að loka túrnum er það Modest Mouse. Mikil skemmtun framundan.

 

Vil að lokum benda á fjóra nýja bloggvini hér til vinstri. Allir voru þeir svo almennilegir að samþykkja mig sem "vin" þegar eftir því var leitað. Fyrir þá sem ekki vita eru þetta þeir bræður Hafsteinn og Lúðvík Gunnarssynir Haus ;) (prívat) Báðir afar skarpir drengir og góðir pennar eftir því. Blaðamaðurinn ógurlegi, Sigurður Elvar Þórólfsson er sá þriði og Orri Harðar er síðan sá fjórði en hann þarf varla að kynna enda mikið celeb þar á ferð, eins og Gunnlaugur myndi orða það. Ég er hinsvegur engu nær hver þessi SAS er...

 

Að endingu læt ég fylgja með eina mynd sem sýnir vel hversu seint maður ætlar að læra af eigin mistökum. Er núna að ljúka mínu fjórða ári hér ytra undir brennheitri Alabamasólinni og ætti að vera þekkja hversu miskunnarlaus hún getur verið fyrir föla íslenska húð. En...

ÞumbiMagi og bringa fengu sama fallega roða


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ill Casa del Putos er eitthvað sem kemur manni að góðum notum að kunna á Spáni. Já og Cerveza. Segðu bróður þínum það ;-)

S.Svanbergsson (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 11:28

2 identicon

la casa de putos kemur að góðum notum ef maður er samkynhneigður en ef maður er gagnkynhneigður fer maður í la casa de putas

Kiddi (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 16:23

3 identicon

Það er ljótt hvað einn stafur getur gert. Eins gott að leiðrétta þetta ekki seinna en strax

S.Svanbergsson (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 12:10

4 Smámynd: Hjörtur Júlíus Hjartarson

Þú verður að gæta þín Sibbi, Kiddi Llorenz er á vaktinni ;)

Hjörtur Júlíus Hjartarson, 4.4.2007 kl. 17:28

5 identicon

Já Kiddi lætur mann líta út eins og Loco hérna. Maður hefur sig hægan hér eftir ;-)

S.Svanbergsson (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Fréttir úr kanalandi

Höfundur

Hjörtur Júlíus Hjartarson
Hjörtur Júlíus Hjartarson
Stjórnmálafræðingur og ríkisstarfsmaður
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Sigrún í La Traviata
  • Þursaflokkurinn
  • Heimir og Faxi í árdaga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband