Nettengdur und das postmeister

Loksins er netið uppsett á heimilinu og því kjörið að henda ögn hér inn. Það er svosem flest við það sama hér. Fótboltinn gengur afar vel og nálgast takmark okkar Þróttara um deildafærslu stöðugt. Tæpur sigur í gær gegn Stjörnunni þar sem undirritaður var með niðurgang allan leikinn líkt og reyndar flestir samherjar mínir. Þetta hafðist þó á endanum.

Íbúðin hjá okkur hérna á Sörlaskjólinu er komin í fínasta stand; öll húsgögn uppsett og saman skrúfuð og síðast en ekki síst tókst mér að tengja stóra flatskjáinn sem ég fékk gefins ytra. Mikil hamingja með það. 

Það eina sem hægt er að setja útá nýju húsakynnin eru nágrannarnir. Þrjár íbúðir eru í húsinu-við Olla erum í kjallaranum, á efstu hæðinni eru miðaldra hjón sem ekki fer nú mikið fyrir. Þau virka reyndar afar furðuleg bæði tvö en meinlaus að sama skapi. Læt það liggja á milli hluta. Skaðvaldur hússins er hinsvegar hin íslensku-þýskumælandi-skrollandi Úrrrrsúla. Kerlingin er 79 ára og telur sig vera yfirvald allra þeirra sem hér búa. Hún situr daglangt við eldhúsgluggann sem snýr að innkeyrslu hússins og fylgist grannt með ferðum allra sem um hér fara. Úrrrrsúlu finnst það vera sína skyldu að agnúast yfir öllum hlutum, smáum sem stórum. Það nýjasta er að nú telur hún pöddur hafa heimili í geymslunni okkar og heimtar að hún sé rýmd hið snarasta. Úrrrrsúla býr ein ef frá eru taldir fresskettirnir hennar tveir. Jafnógeðslega ketti hef ég ekki á ævi minni séð. Annar er svo taugaveiklaður að hann tekur ævinlega á sprettinn þegar hann verður mannfólks var. Hinn er grindhoraður albinói og hef ég nú þegar gefið honum nafn sem mér finnst hæfa honum afar vel í ljósi viðurstyggilegs útlit hans; Satan. Síðan nota þessir andskotar stigaganginn sem hlandkassa og er lyktin í sameigninni eftir því...

Auk þess að vera yfirvaldið sjálft er Úrrrrsúla einnig sjálfskipaður póstmeistari hússins. Allt sem inn um lúguna kemur, bréf, blöð og annað þvíumlíkt berst ekki í hendur annarra íbúa fyrr en eftir dag eða tvo í íbúð Úrrrsúlu. Hún sér um að "flokka" allan póst og útdeila honum svo til okkar hinna þegar henni hentar. T.a.m. fékk ég bréf í vikunni stílað á föður minn sem á þessa íbúð, dagsett 30. maí- og það var búið að opna það í þokkabót!

Ekki vil ég að fólk taki þessum árasum mínum á aldraða konu á rangan hátt; eflaust finnst mörgum sem svo að konugreyið sé nú bara venjuleg gömul dyntótt kona, sem óþarfi er að níðast svona á. En ónei, ég sé í gegnum þykjustu heyrnarleysið sem hrjáir hana á afar "hentugum" tímum. Úrrrsúla er lævís sem refurinn og ég mun afhjúpa hana einn daginn. Fréttir af því mun ég færa lesendum vonandi fyrr en síðar...  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

já það máttu eiga að frásagnarhæfileikarnir eru dágóðir, þótt þú getir ekkert í fótbolta :)

kveðja að austan!

Bylgja (IP-tala skráð) 1.8.2007 kl. 12:22

2 Smámynd: Hjörtur Júlíus Hjartarson

Þar sem aðeins annað af þessum tveimur hlutum mun ég koma til með að geta til lengri tíma er ég ánægður með að þú hrósaðir mér fyrir skrifin frekar en knattspyrnuhæfileikana...

Bestu kveðjur austur úr sollanum í Reykjavík! 

Hjörtur Júlíus Hjartarson, 2.8.2007 kl. 17:27

3 Smámynd: Guðrún Björk

datt óvart hér inn - ákvað að kvitta

 kvitt...

Guðrún Björk, 2.8.2007 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Fréttir úr kanalandi

Höfundur

Hjörtur Júlíus Hjartarson
Hjörtur Júlíus Hjartarson
Stjórnmálafræðingur og ríkisstarfsmaður
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Sigrún í La Traviata
  • Þursaflokkurinn
  • Heimir og Faxi í árdaga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband