Þriðjudagur, 18. mars 2008
Pása...
Upphaflega var þessi síða sett upp í þeim tilgangi að flytja fréttir af ævintýrum undirritaðs í kanalandi. Vinir og vandamenn gátu fylgst með hvað á daga mína dreif og hvernig hlutirnir gengu fyrir sig. Sparaði mörg símtölin heim með því að rita nokkrar línur í hverri viku. Frá kanamanni flutti ég fyrir að verða ári og þörfin fyrir upplýsingaflæði því töluvert minni. Hélt þó eitthvað áfram með síðuna þar sem ég var viss um tjáningarþörf mín væri gífurlega mikil. Hef hinsvegar áttað mig á því að ég hef skoðun á mun færri hlutum heldur en ég hélt í fyrstu. Mér er ótrúlega mikið sama um endalaust marga hluti. Þ.a.l. ýtir ósætti mitt við þjóðþrifarmál ekki undir nein skrif hér. Og þar sem ég hef litla hugmynd hverjir ramba hingað inn nú til dags, hef ég lítinn áhuga á að fabúlera mikið um mig og mína. Það má því segja að ég sé gjaldþrota með ástæður fyrir áframhaldandi bloggskrifum...í bili í það minnsta.
Bless
hjh
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 2. mars 2008
Ljómandi
Þannig er þessum laugardegi (sem reyndar er formlega liðinn þegar þetta er ritað) best lýst. Tók daginn snemma og var mættur í Efstaleitið fyrir níu enda stórt prógramm framundan og mikilvægt að undirbúa sig vel. Reyndar var æfing hjá stórliði Þróttar í millitíðinni áður en að það allt saman hófst. Bikarúrslitaleikirnir í handbolta karla og kvenna var mál málanna í dag, í það minnsta hjá okkur RÚV-urum. Það var ákveðið fyrir nokkru að leggja svolítið í þetta og hnykla vöðvana, þ.e.a.s. ef þeir voru enn til staðar...
Fórum í loftið klukkan eitt og vorum þar til að verða sex. Að mínu mati var dagskráin hjá okkur og uppsetningin á öllu klabbinu okkur til sóma. Náðum viðtölum við alla þjálfarana fyrir og eftir leik auk nokkurra leikmanna niðri á gólfi. Vorum með innslög um leið liðanna í úrslitaleikina sem og ítarleg umfjöllun um leikinn ´98. Freyr Brynjarsson var fenginn í Höllina á þann stað sem hið umdeilda aukakast var tekið á sínum. Það var flott. Síðan, að mínu hlutdræga mati, var setustofan mjög góð. Einir átta gestir runnu þar í gegn og tel ég á engan hallað þó ég minnist sérstaklega á Ómar og Hemma sem fóru á kostum. Ef Kári frændi hjá Í.E. býr einhverntímann til töflur sem garantera fríkort frá manninum með ljáinn þá skal tveim fyrstu verða dælt í þessa tvo snillinga. Óborganlegir!
Og það er ekki bara ég sem var ánægður með prógrammið hjá okkur, meira að segja hinn grimmi gagnrýnandi, kollegi minn Henry Birgir lýsti yfir ánægju sinni með þetta allt saman. Á dauða mínum átti ég nú von-en að hrós kæmi úr þessari átt til RÚV...Ánægjulegt engu að síður og þakka ég kærlega fyrir það.
Og þar sem hún Olla mín á afmæli á mánudaginn ákvað ég að við skyldum gera eitthvað í kvöld í tilefni dagsins. Hámenning varð fyrir valinu og því lá beinast við að fara á La Traviata. Hann Birgir Örn, minn elskulegi frændi er kvæntur aðalsöngkonunni, Sigrúnu Pálmadóttir sem gerði, auk rífandi góðra dóma, leikhúsferðina enn meira spennandi. Þar sem söngurinn hófst klukkan átta var ekki tími fyrir úberfansí dinnerferð og því varð Ítalía fyrir valinu. Sá staður gerði ekkert í brækurnar frekar en fyrri daginn. Eeeen, La Traviata, var frábær skemmtun. Fyrstur skal viðurkenna fávisku mína um hvað gerir óperu góða og hvað ekki en söngur Sigrúnar var hreint út sagt ótrúlegur, svo mikið veit ég. Sigrún var svo sannarlega "ættinni" til sóma og vel rúmlega það. Hinir voru ágætir líka, held ég.
Á morgun er síðan fyrsti leikur okkar röndóttu í deildarbikarnum gegn Frömurum og mér skal takast það sem mér mistókst síðast gegn drengjunum úr Safamýrinni- að klobba Reynsa slef...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 26. febrúar 2008
Í alvörunni?
Ég get bara ekki orða bundist varðandi þessa umræðu um júróvisjón. Menn að velta því fyrir sér hvort brögð hafi vrið í tafli við talningu atkvæða, hvort lagið "henti" betur í Serbíu, hvort maður segir glymur eða bylur....
Hverjum er ekki drullusama? Í alvöru. Öll lögin fyrir utan kannski eitt tvö í þessari keppni eru ömurleg, og þá sérstaklega lögin í tveimur efstu sætunum. Menn sem ég hef hingað til talið nokkuð kúl eru að missa sig yfir júróvisjón og eiga varla til orð yfir þessu mikla óréttlæti sem Mercedes Club varð fyrir á laugardaginn.
Og Kastljósið í gær...
takk
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 24. febrúar 2008
Þursarnir í fínu formi
Stórkostlegir tónleikar hjá Þursaflokknum í gær. Stóðust allar þær miklu væntingar sem maður gerði fyrir tónleikana og gott betur. Allir fóru Þursarnir á kostum, lagavalið var gott, bandið var kraftmikið og Egill Ólafsson sýndi það og sannaði að hann er einn allra besti söngvari sem Ísland hefur alið. Þursarnir nutu stuðnings hljómsveitarinnar Caput, strengja- og blástursband sem reyndar opnaði tónleikana. Caput tók þá syrpu af þekktum Þursalögum í nýrri útsendingu sem var ljómandi fínt og vel það.
Þursarnir stigu að því loknu á svið með Caput og léku af krafti næstu tvo tímana. Það eina sem svíður agnarögn er hversu stór hlutur Caput var á tónleikunum eftir að Þursaflokkurinn steig á svið. Mér fannst Þursarnir ekki þurfa á þeim að halda. Til að mynda yfirgnæfðu blásturshljóðfærin Hammondin hans Eyþórs Gunnarssonar margoft og fannst mér stundum eins og ég væri staddur á tónleikum með hálfgerðu brassbandi. Eins var ég sammála sessunauti mínum á tónleikunum að stundum fannst manni hreinlega eins og það mætti bara skrúfa ögn upp volume takkann.
Þursarnir tóku fjögur lög í uppklappinu, öll án Caput og þá sá maður svo greinilega að Þursaflokkurinn hefði vel getað skilað þessum tónleikum í hús án nokkurrar aðstoðar- ekki svo að skilja að þeir hafi verið hræddir um annað og því fengið Caput til liðs við sig- heldur fannst mér bandið bara njóta sín betur á þessum kafla.
Engu að síður stórkostleg skemmtun sem ég hefði ekki viljað missa af. Það er bara örlítið svekkjandi að þetta hafi ekki verið allt saman hnökralaust...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 22. febrúar 2008
HSÍ kallarnir hressir
Ótrúlegt meltdown Þorbergs Aðalsteinssonar í Utan Vallar í gær hefur skiljanlega verið ofarlega í umræðunni í dag. Það var með hreinum ólíkindum að fylgjast með Tobba fara hamförum í þættinum og dúndra fram hverri bombunni á fætur annarri. Erfitt er að geta sér til um hvað Þorbergi gekk til, hvort HSÍ sé virkilega svona ósáttir við framkomu Arons og Dags eða hvort Þorbergur hafi bara "misst sig". Hallast að hinu síðarnefnda.
Þátturinn Utan Vallar hefur styrkst frá því hann fór fyrst í loftið- það verður bara að viðurkennast. Ekki svo að skilja að svona þættir geti ekki verið góðir nema einhver eða einhverjir hendi skítabombum í allar áttir í hverjum þætti svo hann teljist góður- það skemmir hinsvegar ekki ;)
Ég er nokkuð sáttur við fréttaflutning okkar RÚV-ara í kvöld. Ég og Snorri Sturlu tókum hádegisfund um hvernig væri best hægt að tækla málið. Mikilvægast fannst okkur að ná í Aron eða Dag. Gott væri að ná tali af Guðmundi formanni, ekki crucial en mikilvægt engu að síður. Síðan gaf það fréttinni meiri dýpt að fá álit einhvers sem er vel virtur innan handboltahreyfingarinnar. Nokkur nöfn komu upp og urðum við á endanum sáttir með Palla Ólafs. Hann klikkaði ekki og rak fínan endahnút á umfjöllunina. Ekki tókst mér að ná í Guðmund eftir fundinn, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Aron gaf sig loks hálftíma áður en 7-fréttir hófust. Án hans var lítið kjöt á þessu öllu saman. Það var því töluvert stress í gangi klukkutíma fyrir útsendingu. Allt hafðist þetta á endanum hjá okkur Snorra og verð ég að segja- án þess að hnýta í nokkurn- að mér fannst fréttin okkar af málinu heldur betri en hjá keppinautinum. Lít hinsvegar ekki framhjá því að hún hófst hjá þeim og því alltaf ljóst að við erum "undir" í þessu öllu saman. Það hlýtur að vera mínu liði hvatning að gera betur- ef ég má orða það þannig.
Eftir stendur hinsvegar spurningin hvort Þorbergur hafi hreinlega verið í annarlegu ástandi. Veit ekkert um það og ætla alls ekki að gerast svo óábyrgur að fullyrða neitt um það. Hvort sem er þá hlýtur Þorbergur að íhuga hvort honum sé stætt á að sitja áfram í stjórn HSÍ. Ef hann ákveður ekki sjálfur að taka það skref ætti HSÍ að íhuga það alvarlega að gera það fyrir hann...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 19. febrúar 2008
Tilbage
Jæja, þá er maður kominn heim eftir vel heppnaða ferð til Danamanna. Fínt veður- þannig lagað- ágætar æfingar og góðir leikir. Klassískir íslenskir hlutir gerðir í Köben- rölt um Strikið og auðvitað kíkt í H&M. Sitthvað verslað þar. Ekki fékk næturlífið í Köben að njóta nærveru minnar að þessu sinni þar sem höfuðstöðvar okkar voru í Köge, smábæ 40 mín frá Kaupmannahöfn.
Íslendingaskemmtunin heppnaðist ljómandi vel þar sem Björn Jörundur fór hamförum með Jón Ólafs sem meðreiðarsvein. Tóku reyndar bara þrjú lög og hefðu að ósekju mátt taka fleiri (eins og reyndar til stóð) en giggið var brilljant hjá þeim félögum engu að síður.
Einn af hápunktum ferðarinnar var hinsvegar ekki í auglýstri dagskrá við upphaf ferðar. Skagamaðurinn Þórhallur Rafns Jónsson, félagi minn frá Skallagrímsárunum er búsettur rétt hjá Ráðhústorginu og eftir að hafa sett mig í samband við hann þegar út var komið bauð hann og Arndís mér og Ollu í mat til sín. Þar tóku þau hjón höfðinglega á móti okkur með þriggja rétta máltíð og alles. Afar ánægjuleg kvöldstund sem við áttum þar enda langt um liðið síðan og ég Tolli (kallast það nú reyndar eitthvað takmarkað núna) höfum hist.
Ljómandi gott allt saman, jájá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. febrúar 2008
Á leið til baunalands
Held í nótt til Danmerkur með Þrótti í æfinga- og keppnisferð. Þróttarar vilja reyndar kalla þetta Evrópukeppni þar sem við mætum tveimur dönskum liðum en það er víst ekki alveg svo gott. Rúta flytur leikmenn og nokkra maka frá Þrótti klukkan fjögur í nótt- það verður því early rise á Rauðalæknum. Áætlað er að við spilum tvo leiki við einhver baunalið sem ég man ekki nöfnin á en eiga að vera nokkuð sterk. Síðan verður æft inn á milli. Á laugardaginn verður síðan slegið upp heljarinnar Íslendingaballi þar sem Jón Ólafsson og Björn Jörundur sjá um að stjórna útsendingu. Það ætti að vera stuð.
Venlig hilsen míne venner ( svo maður slái nú aðeins um sig...hmmm)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. febrúar 2008
Ætli Villi sé geðveikur?
Mér finnst þetta mjög sanngjörn spurning. Gamli góði Villi hefur undanfarnar vikur borið af sér þokka manns sem er ekki alveg heill á geði. Annaðhvort er Villi óskaplega einfaldur maður sem lét fíflast soldið með sig á sínum tíma eða þá að hann er mjög óheiðarlegur stjórnmálamaður. Hvort sem er verður maðurinn að fara snúa sér að einhverju öðru.
Það fór um mig kjánahrollur þegar ég fylgdist með Villa á blaðamannafundinum í gær. "Ég hef axlað ábyrgð með því að missa meirihlutann og borgarstjórastólinn". Ég er nokkuð viss um að allir aðrir en Villi átti sig á því að hann átti engan þátt í því að hann og hans fólk var sett af. Síðan veit ég ekki betur en að hann sé aftur kominn í meirihlutasamstarf og borgarstjórastóllinn verði hans á nýjan leik eftir u.þ.b. 14 mánuði! Það er gott að menn axli ábyrgð...
Sjálfstæðisflokkurinn hefur baulað um það í áraraðir að kjörnir fulltrúar og skipaðir embættismenn ættu beri meiri ábyrgð á gjörðum sínum og annarra undirmanna sinna. Sérstaklega voru þeir háværir þegar spítalaforstjórarnir fóru ár eftir ár framúr fjárhagsáætlunum en sátu alltaf sem fastast. Líkast höfðu þeir bara ekki úr nægum peningum að spila en það er annað mál. Pistlahöfundur Fréttablaðsins dregur skemmtilega fram í blaði dagsins ummæli Villa Vill þegar Þórólfur var að gera í sig fyrir nokkrum árum. Þar heimtaði Villi-réttilega- að Þórólfur segði af sér. Það er ekki mikill munur á þessum tveimur málum. Þórólfur sagði á endanum af sér- Villi...hann verður aftur borgarstjóri. Æi, er nokkuð ástæða til að vera nölla yfir þessu. Það er nefnilega mjög gaman af þessum öllu saman. Fullorðnir menn snöktandi í gríð og erg yfir óréttlæti heimsins og það í beinni útsendingu. Það toppar fátt svona sjónvarpsefni.
Svona nokkuð myndi aldrei gerast upp á Skaga. Gítar-Gilli og Gunni snúður myndu ekki leyfa það. Verkalýðshetja okkar Skagamanna, Villi Bigg er líka virkasti varðhundur landans um þessar mundir og með hann í nágrenninu þora menn ekki í neinn monkíbissness!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 7. febrúar 2008
CSI- gubb
Datt inn í CSI Miami þátt um daginn. Þessir þættir hljóta að vera með því ömurlegasta sem sýnt er í íslensku sjónvarpi. Það er svo ótalmargt viðurstyggilegt við þennan þátt- kannski enn fleira sem er bara hlægilegt. Eins og þetta til dæmis með sólgleraugun. Ég geri mér grein fyrir því að sólin skín skært í Miami og allt það en þegar viðkvæmustu rannsóknarvettvangarnir eru rannsakaðir með risastór dökk sólgleraugu þá svona fer soldið af kredibillitíunu útum gluggann. En framleiðendur moka inn peningunum á þáttunum svo þeim er sjálfsagt skítsama hvað einhverjum lúða á norðupólnum er að baula.
Sorglegasta fígúran í þessum þáttum er samt David Caruso. Í miðjum þætti mundi ég eftir að Jim Carrey hafði verið hjá David Letterman einhverju sinni þegar ég var enn úti í USA og hann var með eftirhermusketch. Grunaði að þetta væri inn á youtube og auðvitað var það svo...
Bloggar | Breytt 8.2.2008 kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 6. febrúar 2008
Heimir hinn góði
Minn kæri vinur, Heimir Jónasson, á afmæli í dag. Heimir er einum níu mánuðum eldri en ég sem þýðir að í þann mund sem Heimir leit dagsins ljós í fyrsta sinn var Hjössi Júll að gera sér dælt við Stínu Magg- í þriðja sinn...
Vinátta okkar Heimis telur yfir 20 ár og hafa ágreiningsmál okkar verið af skornum skammti, sem er undarlegt því ég þyki frekar þrætugjarn maður ;) Það er líkast til geðprýði Heimis sem ræður mestu þar um...
En allavega, innilega til hamingju með daginn Heimir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um bloggið
Fréttir úr kanalandi
Myndaalbúm
Fólk
Gamla síðan
Skólinn minn
Skemmtileg lesning
Alabamafólk
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar