AUM á leið í úrslitakeppnina

Þar sem það þykir ekki fréttnæmt á íþróttadeild RÚV að AUM sé komið í úrslitakeppnina flyt ég bara fréttir af því hér. AUM vann glæstan sigur á sterkum keppinautum okkar í undan-og úrslitaleikjum Regionals-keppninnar. Í undanúrslitum unnu þeir Berry, 4-1 og í úrslitaleiknum vannst sætur sigur á Lee, 4-3, þar sem Kári "leggjalangi" Ársæls setti tvö úr vítaspyrnum. Hélt reyndar að Sigurður eða Gegn LeeMaggi væru skyttur, en þeim hefur greinilega brugðist bogalistin á tímabilinu. Strákarnir stefna nú ótrauðir til Kansas þar sem úrslitakeppnin fer fram. Síðast þegar stórlið AUM lék í Kansas fór liðið alla leið í úrslitaleikinn. Það yrði óskandi ef drengirnir tækju skref til viðbótar og kláruðu dæmið núna...Annars er hægt að fylgjast með afrekum minna manna á heimasíðu míns ástkæra skóla á eftirfarandi slóð www.aum.edu.


Í næsta nágrenni

Ekki mikið á daga oss drifið undanfarið. Skagaklúbburinn  mínus R-ið og Guz, hittist um þarsíðustu helgi á La Primavera. Ein fjögur ár eru síðan ég sat síðasta fund með háttvirtum meðlimum,eða allt frá ég fluttist til kanalands. Það var því kærkomið að eiga kvöldstund með gömlu félögunum á ný. Og það er skemmst frá því að segja að kvöldið var stórkostleg skemmtun frá upphafi til enda. Vissulega fengu nokkrar gamlar sögur að fjúka í hundraðasta skiptið en það var einnig óvenjumikið af nýju og fersku bulli. Næsti fundur er áætlaður í mars á næsta ári og verður jafnvel haldinn á erlendri grundu. Meira um það síðar...

 

Pé Pé

Sá örstutt viðtal knattspyrnuhetjuna Pétur Péturs í DV um daginn. Þar var hann spurður hvar hann ætti heima og kom þá í ljós að hann býr á Rauðalæk 42, en ég var einmitt að fjárfesta í íbúð við sömu götu, nánar tiltekið við 37. Ég sé það ekki fyrir mér að stundum okkar Péturs eiga eftir að fjölga við þessa staðreynd. Engu að síður finnst mér þetta staðfesta það sem ég og Gunnlaugur höfum alltaf vitað: Ég og Petró áttum alltaf meira sameiginlegt heldur en ég og Siddi! Held meira að segja að Siddi sé að flytja á Melhagann. Hvar býrð þú aftur Gulli? 


Ammæli

Ég á afmæli í dag. 33 ár eru liðin síðan kom veinandi útúr móðurkviði á sjúkrahúsinu á Akranesi. Lítið sérstakt verður gert í tilefni dagsins, annað en að vinna. Það er reyndar mjög lítið sérstakt. Vonandi verðu ég búinn fyrir kvöldmat-þá verður kannski farið út að borða...gífurleg spenna!

Ststststam og klúður

Einhver klassískasta setning sem fólk í ljósvakamiðlum lætur falla er sú að ´allt getur gerst í beinni útsendingu´. Ég hef svosem ekki látið þessi orð útúr mér, en ég fékk hinsvegar að finna fyrir því í gær að margt getur farið úrskeiðis. Þeir sem sáu fréttirnar í gær hafa eflaust tekið eftir stami og hiki hjá undirrituðum í inngangnum að einni fréttinni. Það var ekki stressið sem var að sliga mig heldur var það þannig að misskilningur átti sér stað þegar ákveðið var hver stjórnaði textavélinni. Misskilningurinn olli því að textinn rúllaði ekki með lestrinum mínum og því hafði ég lítið að segja þegar allt á skjánum var lesið...Vélin fór á endanum aftur af stað og tókst mér að baula restinni út.

Mistökin í gær ollu því hinsvegar að í fyrsta skipti í kvöld var ég með smá hnút í maganum áður en ég fór í loftið. Og viti menn, stamið lét aftur á sér kræla og orðið ´afsakið´ féll enn og aftur af vörum mínum. Ég ætti kannski bara að byrja allar fréttir á þeim orðum. "Afsakið. Í íþróttafréttum kvöldsins er þetta helst..." 


Blæðandi magasár

Þvílík spenna og hasar! Var að sjá um kvöldfréttirnar (10-fréttir) einn í fyrsta skipti í kvöld og það var viðbjóður. Úrslit úr leikjum komu seint og illa og stressið við að koma þessu öllu saman fyrir útsendingu var gjörsamlega að fara með óharðnaðan nýliðann. Úff...Geir Magnússon dró mig að landi að þessu sinni en við vorum að klippa síðustu fréttina 90 sekúndum áður en hún átti að fara í loftið! Geir tók þessu nú öllu með jafnaðargeði en ég var að míga og skíta í mig af stressi. Maður segir ekkert "sorry, ég náði þessu ekki í tíma" á þessari stofnun. Nú eða í sjónvarpi yfir höfuð. Það kom berlega ljós að maður er ekki fær í flestan sjó í þessum bransa. Eeeen, ég gémmér tíma. Nokkrir mánuðir í viðbót og ég tek þetta með vinstri. Verð í það minnsta ekki með blæðandi magasár í lok vaktanna...bið ekki um meira í bili.

Sandkassaleikur stelpnanna

Margrét Lára þykir víst ekki nógu skemmtileg...Það er allt og sumt. Hún varð illilega fyrir barðinu á öfundsjúkum kollegum sínum sem gátu ekki unað henni þeim heiðri að hljóta útnefninguna ´Leikmaður ársins´. Þó engar hardcore sannanir séu fyrir því að sms og annað slíkt hafi gengið á milli leikmanna vikurnar fyrir kjörið, þá var augljóslega litið framhjá Margréti. Ég tel það óþarfa að rökstyðja það frekar hér hversu verðug Margrét er að fá þennan titil, það er öllum ljóst. Ég er sammála Elísabetu Gunnarsdóttur sem sagði að velja ekki Margréti væri svartur blettur á kvennaknattspyrnunni á Íslandi.

Daily Show

Jon StewartThe Daily Show með Jon Stewart er þáttur sem ætti að vera sýndur í íslensku sjónvarpi. Ég horfði á þennan þátt á hverju kvöldi öll árin sem ég bjó í Alabama og skemmtilegra sjónvarpsefni er vandfundið. Jason Jones, sá sem er með skrípalætin núna á Íslandi og fór mikinn í fréttum Sjónvarpsins í kvöld, er einn af liðsmönnum þáttarins og einn af þeim fyndnari. Fyrir þá sem ekki vita er þátturinn þannig uppbyggður að hann á heita fréttaþáttur en er í raun skopstæling á þannig prógrömmum. Jon Stewart er svona "anchor-man" og Jason Jones og nokkrir aðrir "fréttamenn" hans og sérfræðingar. 

Það hafa kannski ekki allir náð húmornum hjá þessum manni í dag, nú eða bara ekki fundist þetta fyndið. Allavega lá ég í krampa yfir þessu öllu saman.

Ég var svo heppinn að næla mér í miða í stúdíóið þar sem var verið að taka upp þáttinn þegar ég var í New York um síðustu jól. Það var virkilega gaman. Reyndar hafði ég einu sinni áður séð Jon Stewart með berum augum en það var á verðlaunahátið í Philadelphia fyrir tveimur árum. Þar sá hann um að afhenda verðlaunin, taka í spaðann á verðlaunahöfum og stilla sér upp í myndatöku með þeim. Reyndar sagði hann nokkur orð við mig, spurði mig reyndar spurningar, þar sem við stóðum hlið við hlið uppi á sviðinu í myndatökunni, en þar sem ég var bara eins og smástelpa sem hittir Birgittu Haukdal í fyrsta skipti, kom ég ekki upp einu einasta orði, ekki einu...engar ýkjur, hvorki hóst né stuna. Svitnaði bara og gretti mig. Já, maður er frekar fljótur að missa kúlið.


Jafnskemmtilegur og málning að þorna...

Þetta er eiginlega spurning frekar en fullyrðing eftir að ég fékk skemmtilegan tölvupóst í í morgun. Eftirfarandi er stuttur úrdráttur í bréfinu:

 

Góðann daginn

Ég vil einfaldlega benda á það að lýsingin á landsleiknum er sú allra versta sem ég hef orðið vitni af. Svo virðist sem þeir séu að lýsa málningu þorna, slík er stemmningin. Nú mætti halda að þetta sé vegna depurðar vegna úrslitanna en svo er alls ekki. Þegar við skoruðum vírtust allir vera ánægðir nema lýsendurnir sem virtust ekki hafa áhuga á því sem var að gerast í leiknum. Þetta varð svo verra og verra þegar leið á leikinn...

Það er nefnilega það...Það er kannski ekki við öðru að búast þegar maður þarf að feta í fótspor Samma og þeirra Sýnar-manna sem gjörsamlega sturlast úr æsingi þegar boltinn nálgast vítateiginn. Fólk er orðið vant því að lýsendur séu bara geðbilaðir úr spennu yfir öllu og engu.En, ég tek þessari uppbyggilegu "gagnrýni" á jákvæðan hátt og reyni að hressa mig við. Það skiptir víst öllu máli í dag að vera hress, faglegar vangaveltur sem mér fannst ég og Willum eiga, eiga sér kannski minni hljómgrunn en ég hélt. 

Er´ekki allir í stuði?! 

 


Heima hjá Sigur Rós

Sigur Rós

Við skötuhjúin skelltum okkur í bíó á myndina Heima, mynd álfastrákanna í Sigur Rós. Í fáum orðum var þessi mynd alveg frábær. Hádramatísk í alla staði þar sem tónlistin er í forgrunni. Myndin fylgir hljómsveitinni kringum landið á tónleikaferðalagi þeirra sumarið 2006. Þó myndin sé ákaflega falleg og dramatísk, fannst mér hún aldrei verða tilgerðaleg. Álfastrákarnir eru líka nokkuð eðlilegir í myndinni, tjá sig skýrt og greinilega í viðtölunum, óhræddir og alles. Annars rifjaðist upp fyrir mér þegar ég Bjarki og Óli naut fórum að sjá þá félaga spila í Nashville fyrir um tveimur árum þegar við bjuggum í Montgomery. Læt fylgja með ferðasögu og tónleikarýni sem ég ritaði í kjölfar tónleikanna...Efast um að margir nenni að lesa í gegnum þetta allt, eeeen, læt þetta fara engu að síður.

Ég, Bjarki og Óli naut fórum á Sigur Rós á þriðjudagskvöldið í höfuðborg köntrítónlistar, Nashville, Tennesse. Tónleikarnir voru haldnir í Ryman Auditorium sem er gömul kirkja og tekur rétt ríflega 2500 manns í sæti. Þó ég hafi keypt miðana í nóvember, nokkrum dögum eftir að þeir fóru í almenna sölu, voru sætin sem við fengum ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ekki er hægt að tala um "léleg" sæti í svona litlum sal, en ef það yrði gert þá vorum við í þeim. Uppselt var á tónleikana eins og flesta aðra tónleika þeirra félaga hérna í Bandaríkjunum.

Blaðamannaeðlin var sterkt í mér þetta kvöld og fyrir tónleikana var ég stanslaust að taka púlsinn á tónleikagestum
0Af útliti flestra þarna mátti ímynda sér að allir væru þeir nemar í Listaháskóla Íslands. Lopapeysur og húfur, hlédrægar og hvíslandi listaspírur, mussuklæðnaður og litað rautt hár...Auðvitað var "eðlilegt" fólk inn á mili. Svona plebbar eins og ég...Flestir þeirra sem ég spjallaði við voru hard-core aðdáendur og hlökkuðu mikið til. Rákumst ekki á aðra Íslendinga sem kom okkur töluvert á óvart.

Íslenska hljómsveitin Amina hefur hitað upp fyrir Sigur Rós í um tvö ár, að mér skilst og var engin breyting þar á þriðjudaginn. Amina skipa fjórar stúlkur og það er about it sem ég veit um þessa hljómsveit. Hafði hvorki séð né heyrt í þeim fyrr en á þriðjudaginn. Hafði heyrt nafnið en tónlistin var mér algjörlega ókunn. En allavega, þá mættu þær á sviðið um hálftíma eftir að auglýst dagskrá átti að hefjast, aðallega ég trúi ég vegna þess að fólk var enn að streyma í salinn. Amina spilaði í um hálftíma, instrumental ambient mjálm sem féll gífurlega vel í tónleikagesti. Þetta var allt voðalega hugljúft hjá þeim stöllum en heillaði mig ekkert sérstaklega. Persónulega vildi ég bara fá Sigur Rós á sviðið og skoðun mín því á þeirra frammistöðu ekki alveg sanngjörn.

Innkoma Sigur Rósar var glæsileg. Hvítt tjald huldi sviðið og ekkert að sjá af hljómsveitinni nema risastórar skuggamyndir. Þannig spiluðu þeir fyrsta lagið. Lagaval vinsælustu hljómsveitar Íslands samanstóð að mestu leyti af Ágætis Byrjun og Takk, þó inn á milli hafi læðst lög af (). Einnig voru 2-3 lög sem ég hef aldrei heyrt áður. Það er erfitt að taka út einstök lög og segja þau hin bestu hjá Sigur Rós en hápunktur kvöldsins fannst mér vera þegar þeir tóku Ný Batterí. Stórkostlegt! Spiluðu í um 1 1/2 tíma, að uppklappi meðtöldu.

Hvernig sem á það er litið, heilt yfir, hálft yfir, að hluta til, voru tónleikarnir stórkostlegir. Sleppi dramatísku lýsingunum sem gjarnan fylgja öllu sem Sigur Rós gerir og segi bara að þetta voru frábærir tónleikar í alla staði.

Eftir tónleikana hittum við Lukku, unnustu trommarans, en hún var að selja varning merktum Sigur Rós. Hún fór rakleiðis með okkur félagana baksviðs og kynnti okkur fyrir hljómsveitunum. Verð að viðurkenna að ég var eilítið ´star-struck´ í upphafi en það hvarf sem betur fer fljótlega, ekki síst vegna hversu viðkunnalegir tónlistarmennirnir voru. Nokkuð klassískt að segja að hin og þessi stjarnan hafi verið alveg "ótrúlega eðlileg og ekki með neina stjörnustæla..." Átti svosem ekki von á að það yrði málið hjá þessum drengjum, það sem kom mér hinsvegar mest á óvart var hvað þeir voru lítið skrýtnir. Einungis bassaleikarinn, Georg Hólm, virðist vera fær um að fara í viðtöl fyrir hönd hljómsveitarinnar þar sem hinir eru ávallt eins litlar feimnar álfastelpur þegar fjölmiðlafólk yrðir á þá. Nú ætla ég ekki að fullyrða að það sé einhver tilbúningur hjá þeim, en hinsvegar voru álfarnir með rauðu húfurnar hvergi sjáanlegir þetta kvöld.

Fengum okkur nokkra bjóra með þeim en þar sem Georg virtist alveg einstaklega ósáttur með nærveru okkar þarna, sögðum við upp grúppíustarfinu og létum okkur hverfa. Þó ekki fyrr en ég hafði gefið æstum aðdáendum nokkrar eiginhandaáritanir. Fyrir einhvern misskilning töldu þeir mig tilheyra hljómsveitinni, misskilningur sem ég var ekkert að leiðrétta. "Thanks for coming to our concert" var frasi sem ég notaði mikið þegar fólk var að dásama okkur strákana. Þó frægðin hafi bara varað þessar hefðbundnu fimmtán mínútur voru þær einstaklega skemmtilegar. Vakti mikla lukku hjá öðrum hljómsveitarmeðlimum (fyrir utan depressíu Georg) og hvatti Jónsi mig óspart áfram þar sem áritaði handleggi, miða og peysur af miklum móð. Frekar fyndið.

Niðurstaða:Fjórar stjörnur af fjórum mögulegum...Frábærir tónleikar sem stóðu fyllilega undir öllum væntingum.

hjh


Íbúðarkaup

RauðalækurVið Olla keyptum okkur eitt stykki íbúð á fimmtudaginn. Skrifuðum undir kaupsamning þá og fáum afhent 15 des. Íbúðin er í Laugardalnum (fyrst maður er nú Þróttari...) nánar tiltekið Rauðalæk 37. Þetta er tæplega 100 fermetra íbúð á jarðhæð í fjórbýli, björt og fín. Verðið er ekki uppgefið hér en það var, að ég held, bara sanngjarnt. Hefði að vísu geta keypt mér einbýlishús á Akranesi fyrir sama verð, en mig langar ekki alveg á æskuslóðir núna, kannski seinna...

 

Það heillaði okkur sérstaklega þessi hurð sem fyrrum eigandi var nýbúinn að setja upp, sem gerir manni kleift að ganga beint útí garð. Þar er smá hellulagður pallur þar sem gaman verður að sóla sig. Annars er íbúðin í góðu standi, sem og húsið, mikið nýtekið í gegn. Iðnaðarhendur mínar fá því miður ekki verðugt verkefni að þessu sinni. En maður hlýtur þó að finna dugnaði sínum einhvern farveg engu að síður...hmmm


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Fréttir úr kanalandi

Höfundur

Hjörtur Júlíus Hjartarson
Hjörtur Júlíus Hjartarson
Stjórnmálafræðingur og ríkisstarfsmaður
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sigrún í La Traviata
  • Þursaflokkurinn
  • Heimir og Faxi í árdaga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband