Ekki lengi að gefa færi á mér...

Já, það tók ekki langan tíma að glopra útúr sér eins og einu góðu mismæli. Sagði í beinni áðan þegar ég var að lesa einhverja skvass frétt, að Lúxemburg hefði "unnið í dag á smáþjóðaleikunum sem lauk í gær..." Jæja, það hefði svosem getað verið verra mismælið. Þetta var það fyrsta en næsta örugglega ekki það síðasta.


Að kúka í skóinn sinn

Sumir kollegar mínir (þ.e. aðrir íþróttafréttamenn) virðast ekki ráða sér fyrir kæti í hvert skipti einhver innan stéttarinnar misstígur sig. Fara þar fremstir í flokki blogghetjurnar þeir Henry Birgir og Sigurður Elvar. Báðir ágætir blaðamenn með mikla og góða reynslu. Báðir eru þeir, tel ég, nokkuð virtir innan íþróttaheimsins fyrir vönduð störf. Þeir eru hinsvegar fjarri því að vera saklausir af mistökum sem ratað hafa á síður miðla þeirra. Starfsmanni RÚV var það á um daginn að rita rangt nafn á vefsíðu rúv og gefa sama aðila einhvern slatta af mörkum sem hann átti víst ekki skilið. Ekki veit ég hvernig þessir mistök urðu til en skondin voru þau engu að síður. Nú vil ég ekki taka það frá þeim að nauðsynlegt er að henda gaman af hlutum sem eru fyndnir, rétt eins og fyrrnefnd mistök. Ég kemst bara ekki hjá því að finnast eins og mistök gerð innan þessarar stóru stofnunnar, RÚV ohf., séu á einhvern hátt gert hærra undir höfði en álíka mistök annarra miðla. 

Menn telja mig eflaust hörundsáran og gjörsamlega ófæran um að taka léttu gríni. Það er alls ekki svo. Fannst til að mynda athugasemdin um Jón Bassa gjörsamlega óborganleg þó ég hafi nú reyndar neyðst til að breyta henni.  Allur þessi kafli hefur í raun verið undanfari að þeirri yfirlýsingu minni að nú mun ég gerast þjóðar-sálar-innhringjandinn, líkt og kollegar mínir, með áherslu á innsláttarvillur og málbrenglun í Fréttablaðinu og Mogganum! Þó mun ég reyna að bera fram athugasemdir mínar á aðeins lítillátari hátt með dash minni hroka...Koma svo! 


Þá er það búið...

Frumsýning í sjónvarpinu í kvöld. Vissulega taugatrekkjandi en minna þó en ég átti von á verð ég að segja. Engu að síður var þetta frekar erfitt. Tel mig þó hafa sloppið ágætlega frá þessu. Bogi Ágústsson lét þau orð falla (líkast til að "peppa" úr mér stressið) að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu; "það eru ekki nema 150 þúsund manns að horfa á þig..." Það var hressandi.

OLEOLEOLE!

Kallinn vængjum þöndumLIFI ÞRÓTTUR!! Eins og maðurinn sagði. Úrvalsdeildarsætið tryggt, sem er vissulega bjútifúl, en að vera einungis þremur mörkum frá því að vinna þessa helvítis deild er auðvitað frekar súrt. Eeeen, það skiptir ekki öllu þegar upp er staðið. Önnur deild að ári, þó óvíst sé um framhaldið hjá undirrituðum...Það ræðst allt með tíð og tíma. Nú er tími til að fagna!

Eitt stig...

ÞrótturEitthvað virðist þetta eina stig sem okkur Þróttara vantar til að tryggja sætið í Úrvalsdeildinni á næsta ári ætla standa í okkur.  Tveir tapleikir í röð gegn Fjölni og ÍBV þýðir að við verðum að fara í lokaleikinn án þess að vera búnir að tryggja okkur. Engin óskastaða en úr því sem komið er fögnum við úrvalsdeildarsætinu bara enn meira en við hefðum ella gert.  Þróttur hefur reyndar verið með stöðugan niðurgang í september undanfarin ár sem hefur oftar en ekki reynst liðinu dýrkeypt. Við Þróttarar höfum hinsvegar verið duglegir með klósettpappírinn og komum spikk og span og vel hreinir um afturendann í leikinn gegn Reyni.

Ég fór um daginn með Ollu og Hjördísi á leikritið Heteróhetjur sem sýnt var í Stúdentaleikhúsinu- minnir mig. Þetta var með skelfilegri lífsreynslum sem ég hef upplifað verð ég að segja. Leikritið var hreint afbragð, dramatískt en þó meira fyndið en nokkuð annað. Það sem gerði þessa 80 mínútur hinsvegar allt að því óbærilegar var hversu gífurlega opinskáar lýsingar samkynhneigðum kallana voru á kynlífi þeirra og limaburðum- með dóttir mína mér við hlið...Ég hafði ekki hugmynd um að leikritið væri svona þó ég vissi vel hvert umfangsefnið væri. Dóttir mín er nú ekkert smábarn, fullvaxta unglingur ef svo má orða, og því taldi ég að þetta yrði nú alltílagi. Því fór fjarri. Þó ég sé nú nokkuð öruggur um að Hjördís hafi ekki borið neinn varanlega skaða af leiksýningunni, þá sprettur svitinn aftur fram á ennið bara við það eitt að hugsa um þessar mínútur. Dýrin í Hálsaskógi, Kalli á þakinu og álíka sýningar eru það eina sem við feðginin förum á saman í framtíðinni. Ég tek bara ekki fleiri sénsa í þessu...


Mikil próduksjón

Ekki hefði ég fyrirfram trúað því hversu mikið umstang fylgir einni beinni útsendingu líkt og þeirri sem Sjónvarpið var með á laugardaginn á landsleik Íslands og Spánar. Allur tækjabúnaðurinn, allt starfsliðið og havaríið í kringum þetta. Það var þó ekki það sem var mér efst í huga hálftíma fyrir leik og ég með míkrafóninn í hendinni, tilbúinn fyrir fyrsta "standuppið" í sjónvarpi allra landsmanna. Til stóð að ég tæki viðtal við Eyjólf Sverrissson og um leið átti ég að ausa úr skálum visku minnar með nokkrum orðum áður en að viðtalinu sjálfu kæmi. Engar sérstakar leiðbeiningar lágu fyrir, "bara nokkur orð um leikinn og svona" voru þær skipanir sem ég fékk. Frekar loðið. 

Það var því vænn skjálfti í hnjánum á þessum tímapunkti. Ekki bætti úr skák að nokkrum sekúndum áður en ég hóf bullið að sá sem stjórnaði útsendingunni sagði eyrað á mér að hafa ekki áhyggjur, "það væru ekki nema 80 þúsund manns að horfa á"!!! Ekki fyndið. Síðan dróst það úr hófi fram að Eyjólfur kæmi í viðtalið, sem gerði það að verkum að maður hafði enn meiri tíma til að hugsa um það sem úrskeiðis gæti farið. 

Allt tókst þetta nú þolanlega held ég. Í það minnsta kastaði ég ekki upp eða þaðan af verra. Engin tímamótaframmistaða en sama skapi engin viðurstyggð...vona ég. Reyndar fór Emil Hallfreðsson nokkuð illa með þegar hann svaraði spurningu minni um markið með spurningunni: "Var þetta ekki bara svona ala- Hjörtur, skalli beint hornið?" Í ofanálag við þetta kjaftstoppandi tilsvar Emils, þá frussaði hann með síðasta orðinu risaslummu beint í augað á mér svo ég hreinlega blindaðist í nokkrar sekúndur! Með risa-slefslummu í auganum og versta svar sem byrjandi í beinni útsendingu í sjónvarpi getur fengið, var fátið sem í kjölfarið á mig kom, nokkuð skiljanlegt myndi ég halda!  


Argentína

Árleg Argentínu-ferð okkar félaganna er fyrirhuguð í kvöld í áttunda sinn. Félagsskapurinn samanstendur af '74 árgangnum úr Knattspyrnuliði ÍA auk nokkurra gæðadrengja. Allt hófst þetta með fótbolta-golfi á æfingasvæði ÍA haustið 1999. Sigurvegarinn úr nokkrum keppnum yfir sumarið skyldi fá frían málsverð á Argentínu síðsumars. Keppt var um "græna regnjakkann" í fjögur skipti en af ýmsum ástæðum urðu þau ekki fleiri. Nú er svo komið að einungis Kári Steinn er ennþá að spila með ÍA af upphaflega hópnum, ef spila skyldi kalla..;) Þrátt fyrir skort á fótboltagolfi þá höfum áfram haldið að hittast á þessum góða stað einu sinni á ári. Það er semsagt í kvöld.

Allavega, þá er framundan skemmtilegt kvöld sem er að verða fastur punktur í sósíallífinu. Fordrykkur hjá kaftein marvellous klukkan sjö. Koma svo!


Allir á völlinn!

Það hafa ekki verið margir "stórleikirnir" í 1.deildinni í sumar en á morgun fer fram sá stærsti hingað til í það minnsta þegar við Þróttarar tökum á móti efsta liðinu, Grindavík. Ég tel möguleika okkar nokkuð góða- allir fit- nema að sjálfsögðu Daninn knái. Það ætla aldeilis að reynast frábær kaup...Allavega skora ég á fólk að mæta og hvetja röndótta liðið til sigurs.

Allt fínt að frétta úr vinnunni. Virkilega góður andi ríkir í Útvarpshúsinu og allir boðnir og búnir við að aðstoða nýliða eins og mig. Sem veitir ekki af þar sem ég er enn að ná tökum á þessu öllu saman. Aðeins flóknara en maður taldi í fyrstu að lesa 2-3 mínútna texta svo vel sé. Það er að mörgu að huga sem maður áður tók sem sjálfsögðum hlut. Maður getur víst lítið gert að því hvernig röddin í manni hljómar dagsdaglega en það skiptir kannski ekki öllu máli heldur. Að vera skýrmæltur, ekki lesa of hratt, halda tóninum í röddinni jöfnum og góðum og alls ekki hljóma eins og þú sért að lesa af blaði (!?!) Það tekur tíma að komast upp á lagið með þetta. Ég hef svosem ekki miklar áhyggjur enn sem komið er og fyrst hinn ofursvali Broddi Broddason gerði sér sérstaka ferð á borðið til mín í gær til að bera lof á frammistöðu mína (auk nokkurra góðra ráðlegginga um hvernig má bæta þá hluti sem eru að) þá líður mér bara ágætlega með þetta allt saman.   

Ég ætla ekki að stíga í þann fúla pytt að kommenta mikið á KR-inga þessa stundina, nóg er víst komið. Má hinsvegar til með að lýsa ánægju minni með minn mann hjá vesturbæjarstórveldinu, G.J. sem fór hamförum í sjónvarpinu í gær. Ef sú ræða sem kafteinninn þrumaði þar (með miklu líkamlegu látbragði ) vekur ekki liðsmenn þessa félags til lífsins þá er þeim varla viðbjargandi. En Gulli minn, sparaðu svona tímamóta viðtöl þangað til ég er með míkrafóninn í hendinni ;) 


Út í djúpu laugina...

Þá er bara komið að því. Ég hóf störf í nýju vinnunni í vikunni- reyndar mætti ég fyrst á sunnudaginn en það var meira svona fylgjast með. Gerði  þó reyndar tvennt, las hluta af sex-fréttunum og tók síðan sjónvarpsviðtölin í markakvöldi Sjónvarpsins eftir leik KR og ÍA. Það var vel við hæfi að jómfrúarviðtalið væri við félaga Gunnlaug Jónsson. Gulli er vanur hlutverkinu og því auðveldur viðfangs. Guðjón og Bjarni eru einnig fagmenn í þessu og því ekki mikið mál að spjalla við fyrrnefnda kappa. Fannst þetta ganga alveg ágætlega. Eina sem ég var kannski ósáttur við var hversu mikið klipparinn tók af viðtölunum mínum. Ég lét þetta að sjálfsögðu yfir mig ganga- maður fer ekki að ybba gogg alveg á fyrsta degi...eða hvað?

Annars er ég afar spenntur fyrir þessu starfi. Mér hefur verið afar vel tekið af samstarfsfólki mínu hér innanhús og allir virðast boðnir og búnir við að aðstoða mann þessi fyrstu skref. Framburður og  annað sem viðkemur fréttalestri er undir stöðugu eftirliti tæknimanna útvarpsins sem kemur til með að hjálpa mér mikið því vissulega er margt að bæta. Verð líkast til mestmegnis í útvarpinu til að byrja með en Hrafnkell yfirmaður vill henda mér á sjónvarpsvaktina líka sem fyrst- telur það hreinlega vera betra heldur en að draga þetta lengi. Persónulega myndi ég vilja meiri tíma en fyrirhugað er en ég ræð víst ekki öllu um það.

Skallagrímsdagurinn um síðustu helgi heppnaðist frábærlega og skemmti ég mér konunglega. ´97 liðið hafði töluverða yfirburði í leiknum og sigraði 7-2, að mig minnir. Gamla kempan, Ólafur Adolfsson er keppnismaður mikill og sem liðsmaður 2007 liðsins var hann staðráðinn í að ná fram sigri. Þegar ljóst mátti vera að það takmark myndi varla nást varð hann nokkuð grimmur kallinn. Í eitt skiptið tókst mér að leika á hann en Óli var staðráðinn að heiðra regluna  „aldrei maður og bolti framhjá mér“ sem aldrei fyrr. Í þann mund sem ég hyggst þjóta framhjá honum ;) lætur hann sína löngu skanka vaða í hnéið á mér svo ég lá óvígur á eftir með stingandi verk. Aðspurður hvort þetta væri nú ekki einum of sagði Óli bara: „þú ert bara heppinn Hjörtur að ég tók ekki almennilega á þér“! Um kvöldið þegar menn höfðu drukkið einn, tvo bætti Ólafur svo við- síður en svo afsakandi, frekar svona hlæjandi. „Hjörtur, ég hélt bara að þú værir með legghlífar!!“

Stjarna kvöldsins var eins og svo oft áður, Hilmar Hákonar, aka Hilmario Kempes eða Hillí Vanillí (uppnefni eru Hilmars sjálfs). Maðurinn er endalaus uppspretta af drepfyndnu bulli. Til að mynda þetta: Eftir leik þegar við vorum að sturta okkur, stendur Hilmar fyrir framan alla í klefanum, kviknakinn og segir með sinni mjóróma rödd: „það er ekki hægt að sjá á líkama mínum að ég hafi eignast fjögur börn“. Snillingur!


Stórleikur um helgina

SkallagrímurMarkahæsti leikmaður allra tíma, Valdimar Kristmunds Sigurðsson, hafði samband við mig í síðustu viku og tilkynnti mér að fyrirhugaður væri knattspyrnuleikur í Borgarnesi laugardaginn 24.ágúst næstkomandi og nærveru minnar væri óskað. Leikurinn sem um ræðir er á milli Skallagrímsliðsins sem lék í Úrvalsdeildinni 1997 gegn núverandi liðsmönnum. Í kjölfarið er áætlað að menn snæði saman grillmat sem fyrrum formaður knattspyrnudeildarinnar og mikill snillingur, Jakob Skúlason mun framreiða. Sjálfsagt munu leikmenn eldra liðsins í framhaldinu fara yfir the glory days of Skallagrímur F.C. Vonandi verður það ekki eina umræðuefnið því þá lýkur kvöldinu kannski heldur snemma Smile

Leikurinn hefst klukkan 18.00 á Skallagrímsvelli og hvet ég alla til að mæta.

Fyrst er það hinsvegar leikur Þróttar gegn Njarðvík á föstudaginn. Gífurlega mikilvægur leikur upp á framhaldið og þrjú stig afar nauðsynleg. Með sigri tel ég okkur vera komna með vinstri fótinn upp í efstu deild. Þar sem það virðist ómögulegt að fá Hafþór Ægi til að koma á leik hjá mér í höfuðborginni þá vonast ég til að han tími að splæsa í bensín yfir lækinn og punga út fyrir aðgöngumiða...annars skilst mér að Þóroddur sé tilbúinn til að lána honum fyrir miðanum ef sérstaklega hart er í ári hjá æskulýðsstjóranum Wink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Fréttir úr kanalandi

Höfundur

Hjörtur Júlíus Hjartarson
Hjörtur Júlíus Hjartarson
Stjórnmálafræðingur og ríkisstarfsmaður
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Sigrún í La Traviata
  • Þursaflokkurinn
  • Heimir og Faxi í árdaga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband