Þriðjudagur, 21. ágúst 2007
Af tónleikum og bíóferð
Fórum á afar skemmtilega tónleika í síðustu viku með Jan Mayen. Hljómsveit þessi gaf nýverið út aðra plötu sína, So much better than your normal life- afar "cool" titill- og eftir slatta af hlustun get ég hiklaust mælt með þessari plötu. Skemmtilegt rokk og ról sem er ágætis tilbreyting frá öllu þessu mjálmi sem tröllríður öllu nú um stundir...
Það er kannski verið að bera í bakkafullan lækinn að ætla minnast á frammistöðu Stuðmanna á Kaupþingstónleikunum um síðustu helgi. En gerum það samt. Ég get nefnilega ekki orða bundist yfir þessu prumpi sem "hljómsveit allra landsmanna" bauð upp á. Bjánalegir búningar, misheppnaðar útsetningar á gömlum "smellum" auk almennra leiðinda í lagavali tryggðu að gigg Stuðmanna var það allra lélegasta þetta kvöldið- meira að segja Nylon og huggulegu piltarnir hans Einars Bárða í Luxor voru meiri skemmtun en Stuðmenn þetta kvöld, og voru þau samt frekar döpur...
Í gærkvöld skelltu við okkur síðan á Sicko, nýjustu mynd Michael Moore þar sem heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna er skoðað í þaula. Fjögurra ára dvöl kanalandi hefur vissulega dregið niður "sjokk-stuðulinn" hvað bjánalæti Bandaríkjamanna varðar, engu að síður var maður hálfgapandi yfir þessu mjög svo vonda heilbrigðiskerfi sem Bandaríkjamenn búa við. Það er bara svo með þetta eins og annað í Bandaríkjunum; peningagræðgi og óvægin markaðsöfl ráða ferðinni. Það breytist ekkert í bráð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 15. ágúst 2007
Erfið fæðing
Það var ekki fallegur fótboltinn sem við Þróttarar buðum upp á í kvöld í 2-0 sigri okkar á Víkingum frá Ólafsvík. Mér er nokk sama um það á meðan stigin þrjú halda áfram að tikka inn. Þrátt fyrir að vera mun betri allan leikinn komu mörkin tvö ekki fyrr en síðustu 10 mínútum leiksins eða svo. Þar með erum við komnir í toppsætið og er meiningin að vera þar þegar upp er staðið...
Dóri spurði hér í commentakerfinu í færslunni á undan hvort ég hafi verið í Skallagrímsliðinu '96 sem hirti annað sætið í 1.deildinni af Þrótturum á lokasprettinum. Það var ég reyndar ekki. Var í Borgarnesi tvö ár á undan og þrjú ár eftir það. 1996 spilaði ég með Völsungi á Húsavík- og féll...Ég er því alsaklaus af því að hafa eyðilagt það sumar fyrir Þrótturum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 10. ágúst 2007
Er KR 2007 lélegri heldur en Skallagrímur 1997?
Er nema von að maður spyrji? Átti stutt spjall við félaga Gunnlaug í gær og að sjálfsögðu bar á góma bág staða "stórveldisins". Þrátt fyrir slæmt tap deginum áður og kyrfilega setu í kjallaranum var fyrirliðinn vongóður um áframhaldandi veru í deild þeirra bestu. Þó staðan sé slæm og allt það þá ber kafteininum sú skylda að halda í vonina og berja sína menn áfram- skiljanlega. Sé staða KR og Fram, til þess að gera, sett í ákveðið samhengi þá myndi eflaust mörgum fallast hendur í herbúðum þessara liða. Samhengið sem ég tala hér um er hið einstaka Skallagrímslið frá 1997.
Að 12 umferðum loknum árið 1997 vorum við félagarnir í Borgarnesi með 9 stig og í næstneðsta sæti. Þar sátum við einnig að 18 umferðum loknum með 15 stig og þ.a.l. ekki velkomnir lengur í úrvalsdeildinni. Liðin í 9. og 10. sætum deildarinnar í dag eru með 7 og 8 stig, einu minna en Skallagrímur fyrir 10 árum. Til að KR nái þeim 15 stigum sem við náðum ´97, þurfa þeir að ríflega tvöfalda árangur sinn á síðasta þriðjungi mótsins. Vissulega geta þeir það en því fer fjarri að það "gerist bara" eins og margir virðast halda (aðrir en leikmenn KR sem gera sér fulla grein fyrir alvöru málsins, tel ég allavega).
Af þessari samantekt minni má semsagt komast að þeirri niðurstöðu að Skallagrímsliðið frá ´97 myndi vinna KR-liðið í dag! Einföld vísindi sem erfitt er að hrekja ;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þriðjudagur, 7. ágúst 2007
Það var fyrir 16 árum...
...að ég fór síðast til Vestmannaeyja á Þjóðhátíð.Úr því var bætt um helgina þegar ég eyddi þar laugar-og sunnudeginum. Stórkostleg skemmtun eins og við mátti búast. Olla var svo forsjál að panta flug heim fyrir okkur eldsnemma á mánudagsmorgninum sem var algjör lifesaver og gerði æfinguna seinnipartinn mun auðveldari en ella.
Það var kannski heldur mikið súpað þessa helgina. Heimir og Helga Dís buðu okkur í mat og eins og þeir sem til þekkja vita, þá gjörsamlega hatar Heimir að sjá tóm vínglös hjá gestum sínum. Þessvegna rúlla ég alltaf niður Jörundarholtið frá þeim hjónum...Engu að síður var kvöldið afar ánægjulegt eins og vanalega þegar maður er í góðra vina hópi.
Þróttarar hafa keypt nýjan senter, Dana sem lúkkar nokkuð vel. Virðist vera hörku fótboltamaður og því má maður fara vara sig. Nú er bara drulla sér upp á tærnar á nýjan leik og koma sharpnessinu aftur í gang. Nú eða bara fara grenjandi heim í Skallagrím ;)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 27. júlí 2007
Nettengdur und das postmeister
Loksins er netið uppsett á heimilinu og því kjörið að henda ögn hér inn. Það er svosem flest við það sama hér. Fótboltinn gengur afar vel og nálgast takmark okkar Þróttara um deildafærslu stöðugt. Tæpur sigur í gær gegn Stjörnunni þar sem undirritaður var með niðurgang allan leikinn líkt og reyndar flestir samherjar mínir. Þetta hafðist þó á endanum.
Íbúðin hjá okkur hérna á Sörlaskjólinu er komin í fínasta stand; öll húsgögn uppsett og saman skrúfuð og síðast en ekki síst tókst mér að tengja stóra flatskjáinn sem ég fékk gefins ytra. Mikil hamingja með það.
Það eina sem hægt er að setja útá nýju húsakynnin eru nágrannarnir. Þrjár íbúðir eru í húsinu-við Olla erum í kjallaranum, á efstu hæðinni eru miðaldra hjón sem ekki fer nú mikið fyrir. Þau virka reyndar afar furðuleg bæði tvö en meinlaus að sama skapi. Læt það liggja á milli hluta. Skaðvaldur hússins er hinsvegar hin íslensku-þýskumælandi-skrollandi Úrrrrsúla. Kerlingin er 79 ára og telur sig vera yfirvald allra þeirra sem hér búa. Hún situr daglangt við eldhúsgluggann sem snýr að innkeyrslu hússins og fylgist grannt með ferðum allra sem um hér fara. Úrrrrsúlu finnst það vera sína skyldu að agnúast yfir öllum hlutum, smáum sem stórum. Það nýjasta er að nú telur hún pöddur hafa heimili í geymslunni okkar og heimtar að hún sé rýmd hið snarasta. Úrrrrsúla býr ein ef frá eru taldir fresskettirnir hennar tveir. Jafnógeðslega ketti hef ég ekki á ævi minni séð. Annar er svo taugaveiklaður að hann tekur ævinlega á sprettinn þegar hann verður mannfólks var. Hinn er grindhoraður albinói og hef ég nú þegar gefið honum nafn sem mér finnst hæfa honum afar vel í ljósi viðurstyggilegs útlit hans; Satan. Síðan nota þessir andskotar stigaganginn sem hlandkassa og er lyktin í sameigninni eftir því...
Auk þess að vera yfirvaldið sjálft er Úrrrrsúla einnig sjálfskipaður póstmeistari hússins. Allt sem inn um lúguna kemur, bréf, blöð og annað þvíumlíkt berst ekki í hendur annarra íbúa fyrr en eftir dag eða tvo í íbúð Úrrrsúlu. Hún sér um að "flokka" allan póst og útdeila honum svo til okkar hinna þegar henni hentar. T.a.m. fékk ég bréf í vikunni stílað á föður minn sem á þessa íbúð, dagsett 30. maí- og það var búið að opna það í þokkabót!
Ekki vil ég að fólk taki þessum árasum mínum á aldraða konu á rangan hátt; eflaust finnst mörgum sem svo að konugreyið sé nú bara venjuleg gömul dyntótt kona, sem óþarfi er að níðast svona á. En ónei, ég sé í gegnum þykjustu heyrnarleysið sem hrjáir hana á afar "hentugum" tímum. Úrrrsúla er lævís sem refurinn og ég mun afhjúpa hana einn daginn. Fréttir af því mun ég færa lesendum vonandi fyrr en síðar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 12. júlí 2007
Enn á meðal manna...
Lítið hefur verið ritað á þessu síðu undanfarið þar sem enn er ekki komin internet-tenging á nýju heimili mínu. Hef reyndar greiðan aðgang að tölvu í vinnunni en sökum anna í kóksölu hefur enginn tími gefist til skrifta. Ekki er heldur frá svo miklu að segja hvort sem er...
Eitt og annað að gerast í boltanum. Rauf 100 marka múrinn í deildarkeppnum á Íslandi með þrennunni sem ég skoraði í Eyjum um daginn í góðum sigri minna manna. Á þó enn langt í land í að ná vini mínum, honum Valda Kriss, enda er hann að nálgast 200 mörkin! Sárgrætilegt tap fyrir Keflavík í bikarnum í gærkvöldi. Vorum mun betri allan leikinn og áttum meira skilið fyrir alla þá vinnu sem við lögðum á okkur. En að því er víst ekki spurt.
Og Siggi Sörens: Farðu að panta borð, þetta er búið ;)
Þangað til ég fæ nettengingu heima hjá mér þá verða færslur hér frekar stopular.
Þangað til næst...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 21. júní 2007
Eitt og annað
Lítið eitt hefur á daga oss drifið síðan síðast. Gámurinn frá Bandaríkjunum skilaði sér loks til Íslands og í okkar hendur um síðustu helgi. Það er því ekkert lengur því til fyrirstöðu að flytja inn, íbúðin klár og dótið komið. Smá dytterí eftir sem vart er um talandi. Þangað til dvel ég í íbúð Kidda bró þar sem hann og fjölskylda eru á Spáni. Svo er stefnan sett á að kaupa sér íbúð í Reykjavík þegar salan á húsinu á Laugarbraut er frágengin. Vantar einhvern hús?
Hóf störf hjá Vífilfelli í vikubyrjun. Atvinnumennsku minni í fótbolta lauk þar með eftir rétt tæplegan mánuð. Þetta var mikið sældarlíf á meðan því stóð þó launin hafi reyndar verið í lægri kantinum. Ég verð hjá kók framundir mánaðarmótin ágúst-september, en 1.september hef ég störf á nýjum vettvangi: Íþróttadeild Ríkisútvarpsins.
Afar spennandi starf sem ég hlakka mikið til að takast á við. Ég sótti upphaflega um á fréttastofu RÚV en þar var ekkert að hafa. Fréttastjórinn lagði engu að síður til að ég ræddi við mennina á íþróttadeildinn og eftir stutt spjall við Hrafnkel Kristjánsson lá ljóst fyrir að þetta myndi líkast til ganga upp. Endanleg staðfesting hefur hinsvegar tekið nokkrar vikur og fékkst í raun ekki fyrr en sl. mánudag. Starfið er afar fjölbreytt, bæði við útvarp og sjónvarp. Vinnustaðurinn sjálfur virðist líka líflegur og skemmtilegur og ekki skemmir fyrir að slatti af Skagamönnum starfa þar, þar á meðal Ásgeir Eyþórs, Óli Páll og Jón Páll. Yfirtaka er í bígerð...
Ég sá seinni hálfleik HK og KR í gær. Þvílíkt og annað eins andleysi í einu KR-liði hef ég aldrei séð. Skilst reyndar að þeir hafi verið nokkuð sprækir í fyrri hálfleik en sá ferskleiki hvarf niður með te-inu í hálfleik. Mér finnst það alltaf skýrasta merkið hjá liðum að eitthvað sé að þegar menn nenna ekki einu sinni að rífast: Hvorki við dómarann né sín á milli. Ekki svo að skilja að árangur felist í nölli við dómarann, það er bara svo skrýtið að sjá leikmenn svo sléttsama um hlutina að það skiptir þá ekki nokkru máli hvort dómarinn dæmir eins og fífl (eins og gerðist nokkrum sinnum í gær). Nú veit ég vel að einhverjir segja ´það er ekki til neins að röfla í dómaranum....og allt það, en það breytir þvi ekki að menn missa sig þegar adrenalínið er á fullu og árangur liðs þíns skiptir öllu máli í þessar 90 mínútur. Það er lítið passion í Kr-liðinu í dag. Mér væri svosem nokk sama um árangur kringa ef ekki væri fyrir félaga minn hann Gunnlaug. Þetta er hræðileg staða að vera í og reynir virkilega á geðþolið að standa slíkt af sér...
Hitt röndótta stórveldið í Reykjavík, Þróttur, gengur hinsvegar allt í haginn þessa dagana. Fjórði sigurinn í deildinni í röð náðist á þriðjudaginn þegar við unnum KA 2-0. Næst er það Grindavík á morgun suður með sjó. Ég vænti þess að sjá Habbó í stúkunni...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 14. júní 2007
Those were the...
Fyrir rétt rúmum 14 árum, fór undirritaður ásamt Þorsteini Vignissyni og Hafþóri Birgissyni til Hollands, nánar tiltekið Rotterdam, að heimsækja nýjustu atvinnumenn Íslendinga í fótbolta, Adda B og Badda B. Ferðin var afar skemmtileg í alla staði, helst vegna þess að við fórum á þrenna U2 tónleika, þrjú kvöld í röð. Tónleikarnir voru þeir fyrstu í Zooropa-túrnum, en U2 hafði það fyrir venju (gera kannski enn) að hefja Evróputúrana í Rotterdam.Ekki hef ég orðið svo frægur að komast aftur á U2-tónleika, þrátt fyrir mikla og góða viðleitni. Ég get þó huggað mig við það að á þeim tónleikum sem ég var á, var verið að promotera bestu plötu U2 á þeirra ferli, Acthung Baby... Ég hef lengi leitað að annaðhvort hljóðupptökum eða myndbandi af þessum tónleikum en ekki haft árangur sem erfiði. Hef þó komist yfir lagalista tónleikanna þriggja. Því má við bæta að Bono á afmæli 10.maí og voru tónleikarnir það kvöld aðeins öðruvísi en hinir tveir, meiri léttleiki og fíflagangur hjá hljómsveitinni. (það var ekkert leiðinlegt þarna, Haffi -Steini;):
9.maí, 1993
Zoo Station, The Fly, Even Better Than The Real Thing, Mysterious Ways, One-Unchained Melody, Until The End Of The World, New Year's Day, Dirty Old Town, Trying to Throw Your Arms..., Angel Of Harlem, When Love Comes to Town, Satellite of Love, Bad-All I Want Is You, Bullet The Blue Sky, Running to Stand Still, Where the Streets , Pride
Encore(s): Desire, Ultraviolet (Light My Way), With or Without You, Love Is Blindness, Can't Help Falling in Love
10.maí, 1993
Zoo Station, The Fly, Even Better Than The Real Thing, Mysterious Ways, One-Unchained Melody, Until The End Of The World, New Year's Day, Party Girl*, Trying to Throw Your Arms..., Angel Of Harlem-My Girl, I Will Follow, Satellite of Love, Sunday Bloody Sunday, Bullet The Blue Sky, Running to Stand Still, Where the Streets , Pride
Encore(s): Desire, Ultraviolet (Light My Way), With or Without You, Love Is Blindness, Are You Lonesome Tonight
Comments: * Edge only
11.maí, 1993
Zoo Station, The Fly, Even Better Than The Real Thing, Mysterious Ways, One-Unchained Melody, Until The End Of The World, New Year's Day, Wild Rover, Trying to Throw Your Arms..., Angel Of Harlem, Slow Dancing, I Still Haven't Found , Satellite of Love, Bad-All I Want Is You, Bullet The Blue Sky, Running to Stand Still, Where the Streets , Pride
Encore(s): Desire, Ultraviolet (Light My Way), With or Without You, Love Is Blindness, Can't Help Falling in Love
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 13. júní 2007
Boltinn
Stórlið Þróttar er komið áfram í bikarnum eftir heldur auðveldan sigur á b-liði HK, Ými. Leikurinn vannst, 6-1 og skoraði undirritaður tvö markanna. Þau hefðu þó átt að vera mun fleiri þar sem góðum tækifærum var sólundað á undraverðan hátt. Reyndar fékk ég ekki að spila nema fyrr hálfleikinn, Gunnar telur mig víst of gamlan til að spila tvo heila leiki á viku. Hvað veit hann? Mörkin eru því orðin fjögur í þessum fjórum leikjum sem ég hef spilað fyrir Þrótt. Gaman þegar vel gengur og ég er að njóta þess alveg ágætlega núna að spila fótbolta.
Fékk meil frá fyrrum þjálfara mínum úti í USA þar sem hann var að tilkynna mér að ég hafi fengið einhver verðlaun fyrir síðasta tímabilið. Kanamann vill gefa mörg verðlaun fyrir allt sem honum dettur í hug. Á endanum fara verðlaunin að missa marks þó vissulega sé mjög gaman að fá sum þeirra. Annars fann ég þetta á heimasíðu AUM:
Montgomery, Ala. On Thursday, the Auburn University Montgomery Athletics Department received three of the Southern States Athletic Conferences top annual awards. Senior soccer star Hjortur Hjartarson of Reykjavik, Iceland won the Conference Male Athlete of the Year Award, Womens Tennis Coach Scott Kidd won the Conference Womens Coach of the Year, and Mens Tennis Coach Anuk Christianz was named the Conference Mens Coach of the Year.
During his four year career at AUM, Hjartarson set numerous school, conference and NAIA records including points scored with 308 and goals scored with 136. He was named All-Conference and All-American all four years he played for AUM and in his junior and senior years he was named the Brine-NAIA Player of the Year in Mens Soccer. The Senators qualified for the National Tournament each of his four years and were runners-up for the National Championship during his sophomore campaign.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 11. júní 2007
Samt svo ungur
Litla barnið mitt, hún Hjördís Björk var að fermast í gær og í tilefni dagsins var slegið til veislu eins og venja er. Fermingin sjálf fór fram í Snóksdalskirkju sem er staðsett um 15 kílómetra frá Búðardal. Veislan var síðan í veiðihúsinu í Laxárdal. Allt heppnaðist þetta ljómandi vel, veðrið frábært, maturinn enn betri og margt góðra gesta og þakka ég þeim öllum kærlega fyrir komuna.
Margir foreldrar hugsa til eigin aldurs þegar kemur að fermingu barna þeirra- líkt og nú séu ellimerkin orðin skýrari. Skiljanlega kannski þar sem barnið þitt er jú formlega að ganga inn í tölu fullorðna. Þó vissulega hafi þessi þankagangur lætt sér inn í hugann þá staldraði hann þar stutt við, af þeirri einföldu ástæðu að ég er nú ekki nema rétt tæplega 33 ára gamall. Ég er orðinn vanur því að fólk undrist að ég eigi svona fullorðið barn, ekki síst í ljósi hversu krakkalegur maður sjálfur er í útliti. Ekki er það heldur á það bætandi að Hjördís virðist töluvert eldri en hún er. Gapandi kjaftar hist og her koma mér ekki lengur í opna skjöldu.
En elskuleg dóttir mín er semsagt fermd, nokkrum árum eftir að ég fermdist sjálfur ;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Fréttir úr kanalandi
Myndaalbúm
Fólk
Gamla síðan
Skólinn minn
Skemmtileg lesning
Alabamafólk
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar