Ég vil þunglynda veðurfréttamenn á skjáinn!

Mér orðið meinilla við veðurfræðinga. Daginn út og inn flytja þeir manni hörmungarfréttir af lægðum sem eru "að myndast austur af landinu og ættu að koma inn til landsins seinnipartinn á morgun". Er meira að segja kominn með mestu óbeit á Tedda vini mínum sem þó er hið mesta gæðablóð. Það er bara erfitt að vera sáttur við mann segir manni ekkert nema vondar fréttir. Í mestri óþökk hjá mér er samt helvítið hann Siggi stormur eða hvern fjárann sem hann kýs að kalla sig. Sífellt með eitthvað skítaglott á sér, flissandi eins og smástelpa á meðan hann tilkynnir það að allt útlit sé fyrir það að ég verði á æfingu í 15 metrum á sekúndu, grenjandi rigningu og þremur gráðum. Hvar er samkenndin hjá þessu óféti? Hann er bara alltof glaður á meðan þessum fréttaflutningi stendur! Nei, veðurfréttamenn eiga í sífellu að biðjast afsökunar á því að geta ekki boðið okkur upp á betra veður en það sem er í kortunum. 

Siggi gæti hafið lesturinn einhvernveginn svona: "Ég vil byrja á því að biðja landsmenn alla afsökunar á því sem ég er að fara útlista fyrir þeim. Ég skammast mín mikið fyrir þetta viðbjóðslega sumar sem ég er að bjóða ykkur upp á og ef fram heldur sem horfir er líkegt að ég hverfi af skjánum fljótlega og gefi öðrum tækifæri á að snúa blaðinu við. Mér sýnist sem svo að ég komist ekki lengra með þessar spár mínar og því við hæfi að ég komi mér aftur inn á kontór og hleypi hæfari fólki að." Og þetta ætti að segja með tárin í augunum...


Heimsókn

Fór í afar ánægjulega heimsókn í gær á stað sem óhætt er að kalla æskuslóðir. Brekkubraut 2 á Akranesi hjá þeim Gunna og Rósu var í mörg ár sá staður sem eyddi hvað mestum tíma á. Það var því mjög skemmtilegt að heimsækja þau eftir langan tíma, þó reyndar hafi ég stungið inn höfðinu þar fyrir tveimur árum. Ekki spillti það fyrir að Hafsteinn og Krissý voru á svæðinu með 2/3 af barnaskaranum sínum auk Lúlla, nýráðnum forstjóra Akraness eins og móðir hans virðist vilja titla hann ;) Allt var þetta ljómandi skemmtilegt og hressandi og mikið hlegið. Manni er alltaf vel tekið á Brekkubraut 2...

Fékk þær gleðifréttir í dag að ég er líkast til kominn með vinnu. Sá böggull fylgir reyndar skammrifi að ég mun ekki hefja störf þar fyrr en seinnipartinn í ágúst. Það er þó ekki niðurneglt. Þar sem þetta er ekki alveg hundrað prósent vil ég síður uppljóstra hver þessi nýi vinnustaður er fyrir þessum 7 manneskjum sem hingað koma...Tilkynni það vonandi í næstu viku.  


Endurgreitt

Ég er ekki frá því að ég hringi í KSÍ og krefjist þess að þeir endurgreiði mér hluta af þeirri upphæð sem ég lagði út til að sjá þennan myglaða landsleik. Ég er svosem ekkert miður mín yfir þessum úrslitum, er löngu hættur að gera mér einhverjar háar væntingar til íslenska landsliðsins. Það sem fór hinsvegar mest í pirrurnar á mér að fáir ef nokkur íslensku leikmannanna var að leggja sig fram. Það átti bara labba yfir andstæðinginn á gæðunum einum saman án nokkurrar fyrirhafnar. Markinu hans Brilla brennuvargs var varla fagnað, allt var þetta svo sjálfsagt og auðvelt. Og þó Guddi feiti geti ekki alltaf verið langbesti leikmaður liðsins þá er nú óþarfi að vera svona lélegur. Engu að síður missi ég engan svefn yfir þessu öllu saman, þetta er eins og þetta er...Það gæti samt verið eitthvað í það ég borgi mig aftur inn á landsleik. Ég hvet alla aðra til að gera slíkt hið sama og skella sér frekar á Valbjarnarvöllinn og sjá hið geysiskemmtilega Þróttaralið leika listir sínar ;)


Elton John 3- Modest Mouse 0

Ein af stórum ástæðunum fyrir því að halda úti bloggsíðu sem þessari, er að skrásetja það sem á daga manns drífur til að það hverfi manni ekki algjörlega úr minni þegar frá líður. Að sjálfsögðu er ekki verra ef einhverjir hafa gaman af í leiðinni. Mig langar því til að rita um næstsíðustu helgina sem ég átti sem íbúi í Bandaríkjunum.

Ég og Olla héldum til Birmingham, sem er í næsta nágrenni við Montgomery, í því skyni að fara á tvenna tónleika, sinn á hvorum deginum. Gamla kempan Elton John var með tónleika á laugardagskvöldinu í BJCC Arena, ca 20 þúsund manna höll í hjarta borgarinnar. Ég hef hingað til ekki talið Elton John sem einum af mínum uppáhaldstónlistarmönnum en því meira sem ég hlusta á plötur frá honum gefnar út á milli 70 og 80, því meir vex hann í áliti. Samstarfsslitin við Taupin á sínum tíma  voru John dýrkeypt að því leytinu til að mikið af rusli kom frá honum í kjölfarið. Síðustu tvær plötur frá honum hafa hinsvegar verið ágætar, sér í lagi sú síðasta sem hann vann í samstarfi við sinn gamla félaga. Allavega, var ég mikið spenntur fyrir þessum tónleikum- hvaða lög hann tæki og hverjum hann sleppti. Til að gera langa sögu stutta var kallinn hreint út sagt stórkostlegur. Auglýst var að tónleikarnir byrjuðu klukkan átta og einungis fimm mínútum yfir steig Elton á svið. Ekkert upphitunarbands-bull né aðrar tafir- bara talið í og byrjað. Leigubílavesen kostaði okkur reyndar fyrsta hálftímann af tónleikunum en það kom minna að sök en við óttuðumst í fyrstu.

Ég var geysilega sáttur við lagavalið hjá kallinum. Mikið af elsta dótinu þó slæðst hefði með eitthvað eitís prump. Lögin sem ég var hvað kátastur með voru Mona Lisa and The Mad Hatters, Better off Dead og að sjálfsögðu Tiny Dancer. Mér var hugsað til Reynsla slef á þeirri stundu enda hefur það lag lengi verið eitt af hans uppáhalds. Hefði eflaust hringt í hann ef ekki væri fyrir hans viðkvæma skap, sér í lagi þar sem klukkan var um þrjú að nóttu hjá honum.

Tuttugu mínútur yfir tíu stendur kempan síðan upp, gefur allri fremstu röðinni eiginhandaráritun og kveður bless. Takk. Þrjár og hálf af fjórum...

Fyrir tónleikana hafði ég mælt mér mót við Íslending sem hefur stundað nám í Birmingham undanfarin ár en þrátt fyrir nálægðina hafa samskiptin verið grátlega lítil. Ég og Jón Sigurjónsson eigum sameiginlegan vin í Gulla Jóns og fyrir utan nálægðina í útlöndum var tengingin komin. Svo skemmtilega vildi til að unnusta Jónsa, hún Svana var einmmitt í heimsókn hjá honum þennan mánuðinn og því alveg kjörið að hittast. Jónsi og Svana voru svo almennileg að sækja okkur eftir tónleikana og fara með okkur á einhverja pöbba í Birmingham. Ákveðið var áður en kvöldið var á enda að hittast aftur daginn eftir þar sem ég og Olla yrðum áfram í Birmingham enda Modest Mouse um kvöldið. Dagurinn með þeim skötuhjúum var hinn ánægjulegasti í alla staði og eiga þau þakkir skildar fyrir gestrisnina og yndislegt viðmót.

Á sunnudagskvöldið var síðan förinni heitið á Modest Mouse. Jónsi og Svana ákváðu að slá til og skella sér með okkur. Þrátt fyrir að finnast umrædd hljómsveit alveg frábær, þá sérstaklega tvær nýjustu plöturnar þeirra, ollu tónleikarnir miklum vonbrigðum. Það kann að hljóma einkennilega en vandamálið lá ekki beint í spilamennsku þeirra. Þeir voru, eftir á að hyggja, drullugóðir. Það sem gerði mig hinsvegar snarbilaðann af bræði var attitjúdið hjá þessum gæjum. Tvær upphitunarhljómsveitir spiluðu, sú seinni alveg ágæt, í rúma einn og hálfan tíma. Þá tók við 40 mínútna sándtjekk (!). Að því loknu mátti lýðurinn bíða í hálftíma í viðbót eftir stjörnunum. Ríflega tveimur og hálfum tíma eftir að tónleikarnir áttu að byrja stigu kempurnar á svið. Ég meina, þetta er flott hljómsveit og allt en þeir ekki það mikið inni að þeir geti hagað sér eins og U2! Ekki það að sú hljómsveit myndi sýna svona amatörs vinnubrögð. Jafn geðgóður maður og ég mátti síns lítið þegar gremjan hóf að krauma undir niðri. Það tók góðan part af þeim 90 mínútum sem hljómsveitin spilaði bara að ná mér niður. Illskan gaus síðan strax upp aftur þegar þessir plebbar létu fólkið klappa sig upp í að verða 10 mínútur!

Ef ég reyni að horfa einungis á frammistöðu hljómsveitarinnar á sviðinu fá tónleikarnir þrjár mjög svo verðskuldaðar stjörnur. Ef allt er hinsvegar tekið með í reikninginn kreisti ég fram eina. Og hananú!

Ef þetta hefði verið keppni á milli Elton John og Modest Mouse í að hvernig skal halda tónleika og skemmta aðdáendum, hefði sá fyrrnefndi malað hana. Elton 3- MM 0 

Góðar stundir 


Long time no nothing...

Já, lítið hefur heyrst frá undirrituðum á þessum vettvangi undanfarið. Hef alltaf verið á leiðinni en í iðjuleysi mínu hefur reynst erfitt að finna tíma. Ég er semsagt kominn heim til Íslands og hef eytt þessum tæplega tveimur vikum í atvinnuleit án árangurs. Það virðist vera aðeins flóknara að finna sér vinnu en ég áætlaði, sér í lagi þegar maður er farinn að setja einhverjar kröfur um gæði starfsins sem maður hyggst vinna við. Lagerstarf hjá Nóa Siríus og pizzubakari hjá Kalla dvergi duga ei lengur. Þetta leysist vonandi fljótlega, ella er hætta á skuldafangelsi...

Boltinn er byrjaður að rúlla, svo maður grípi nú til þess yndislega útjaskaða orðalags. Potaði inn fyrsta marki mínu fyrir Þrótt um síðustu helgi í 2-1 sigri á Leikni. Alltaf gaman að skora, hvort sem það er í úrvalsdeildinni, fyrstu, nú eða bara á æfingu. Markagræðgin á sér fá takmörk hjá mér.

Meira síðar... 


Tad tokst!

Jamm, tad hafdist. Mer tokst ad koma ollu heim og saman i lokavikunni i skolanum, ollum verkefnum skilad og oll prof tekin og stadist. Tad var tvi ekkert eftir nema skella ser i sloppinn og setja upp hufuna og utskrifast! Sem eg og gerdi a laugardaginn. BS grada i stjornmalafraedi er tad sem eg utskrifadist med. Engin fekk eg verdlaunin fyrir framurskarandi namsarangur en to tokst mer ad halda mer yfir tremur i gpa, sem er alveg tolanlegt. Tad skiptir to litlu nuna. Dagurinn var i alla stadi frabaer og mjog svo eftirminnilegur, hefdi ekki getad verid betri.

Nuna er eg a heimleid. Buinn ad pakka ollu og skila af mer ibudinni. Eg, mamma, pabbi og amma erum a hoteli rett fyrir utan Atlanta. Eigum flug um hadegi a morgun til Baltimore og svo tadan um kvoldid. Aaetlud heimkomu er eldsnemma a tridjudaginn. Vonandi verdur ekki of kalt tvi ta vaeli eg eins og kelling. Tad er buid ad vera riflega 30 gradur+ undanfarnar 2-3 vikurnar her i Alabama og er madur tvi ordinn godu vanur. Jaeja, madur jafnar sig fljott a tvi. Verdur bara ad hrista kanann ur ser a mettima.

Naest tegar fra mer heyrist verd eg landinu blaa...

Lifid heil

 


Sá á fund sem finnur

Já, ma og pa og amma Sigga mætt á svæðið. Sótti þau til Atlanta í dag og skilaði þeim heilu á höldnu til Montgomery tveimur tímum síðar. Það var reyndar ekki vandalaust að finna þau þegar komið var á flugvöllinn í Atlanta. Enginn af þeim fellur í flokkinn 'heimsborgarar' og stór flugvöllur eins og þessi í Atlanta óneitanlega er, var þeim nokkuð yfirþyrmandi held ég. Allavega voru þau hist og her um flugvöllinn þegar ég mætti á svæðið. Þó flugvöllurinn sé stór er hann sáraeinfaldur. Engu að síður tókst þeim að fara út á þeim stað sem þau áttu alls ekki að fara út. Þarf meira að segja að leggja töluvert á sig til að fara ekki réttu leiðina.

Fyrst fann ég pabba. Hann var með símann og tókst mér þannig að hafa upp á honum. Týndi honum reyndar aftur þegar ég fór að leita að mömmu og ömmu (sem pabbi var sjálfur búinn að týna skömmu áður). Þegar ég svo aftur fann pabba, leiddi ég hann nánast að bílnum mínum og skipaði honum að bíða þar til ég kæmi aftur. Inn í flugstöð aftur hélt ég. Þar fann ég mömmu vafrandi eins og villuráfandi sauð. "Ég skaust bara að pissa", sagði hún, "amma þín er bara hér fyrir utan að bíða með farangurinn." Ok, förum og náum í hana. Ó nei, ekki svo einfalt. Mamma gat ómögulega munað hvar hún hafði setið með ömmu þó ekki væru liðnar meira en tvær mínútur síðan hún var þar! Þá var mér öllum lokið. Amma Sigga lost! Það var ekki annað að gera en að ´skila´mömmu með hinum sauðnum (aka Hjössa Júll) hjá bílnum og skipa henni að bíða þar. Leið eins og ég væri að týna saman leikskólabörn og hvert skipti sem maður finnur einn krakkann verður maður að skila honum innan girðingarinnar svo hann hverfi ekki aftur.

Aftur inn í flugstöð. Og aftur út. Svona gekk þetta í dágóða stund. Held ég hafi labbað þrjá hringi um svæðið og fyrir utan það án árangurs. Um síðir hringir pabbi og segir að amma sé komin. Það var auðvitað. Að sjálfsögðu þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af ömmu popp enda er hún bara töffari. 77 ára og sprækari en flestir í kringum hana. Hún hafði bara gefist upp á biðinni og fann staðinn þar sem þau áttu upphaflega að fara á. Engar flækjur, ekkert vesen. Hefði eflaust farnað betur tríóinu ef amma hefði fengið að ráða för...

En þetta hafðist og dramatíkin var að mestu leyti skilin eftir í Atlanta...í bili allavega. Það eru enn sex dagar eftir og fullt af hlutum sem bjóða upp á afbragðs klúður og misskilning framundan. Fylgist með.

Fór í lokapróf í kvöld. Hafði undirbúið mig heldur illa fyrir það og var árangurinn eftir því. A-ið er algjörlega farið og þarf töluverð gæfa að fylgja mér ef ég á að halda mér í bjéinu. Æi, who gives a ....Svo lengi sem ég næ og útskrifast á laugardaginn þá er mér sléttsama.

Annars verðskuldar síðasta helgi alveg sérfærslu sem kemur á næstu dögum. Tvennir tónleikar og yndislegt fólk sem fór með okkur Ollu eins og kóngafólk. Takk fyrir okkur, innilega Jónsi og Svana. En eins og ég sagði, þá fær þessi för sína færslu þegar ég hef meiri tíma. Núna er ritgerð sem bíður mín. Venti bolli af Starbucks er klár og framundan er semi-all-nighter. Koma svo! 


Stórkostlegt!

Evrópukeppnin er bara okkar keppni! Leikurinn í kvöld tók mig tvö ár aftur í tímann þegar ég og Bjössi Jak föðmuðumst, grátklökkir þegar Liverpool sló Juventus útúr sömu keppni. Eins og í undanúrslitunum fyrir sléttum tveimur árum síðan var Chelsea engin fyrirstaða. Verður gaman að lesa prumpið frá sígrenjandi Portúgalaaulanum á morgun. Einsa Skúla og Jonna Pé þakka ég þátttökuna að þessu sinni...

YNWA 


Heim í sól og hita

Hef lítið lagt mig fram við það að finna mér tíma til að rita nokkuð á þessa blessuðu síðu. Er enn blessunarlega laus við að finna mig knúinn til að skrifa hér í ljósi þess að þessi ágæta síða er í minni þjónustu en ekki öfugt. Það er enginn aðdáendahópur sem knýr mig áfram né er nokkur sem ég veld vonbrigðum þó ekki sjáist ný færsla hér svo dögum skipti. 

Langaði engu að síður til að láta vini og vandamenn vita af því að ég er kominn aftur til Montgomery eftir vel heppnaða ferð til Spánar. Æfingaferðin sjálf var ljómandi fín,gott tempó og veðrið alveg þokkalegt. Vellirnir fínir og báðir æfingaleikirnir á móti sterkum liðum. Það eina sem hægt er að setja út á ferðina var sjálft ferðalagið. Alltof langur tími fór í það. Annars vonast ég til að skrifa smá ferðasögu, gaman að skrifa eitthvað um þessa ferð á meðan hún er manni enn í fersku minni. 

Nú eru nákvæmlega 7 dagar í að gestirinir mínir mæti á svæðið, 12 dagar í útskrift og 14 dagar í brottför...Ótrúlegt að hugsa til þess að nærri fjögur ár séu liðin síðan maður kom hingað fyrst. Allt tekur þetta víst enda og ég er ekki frá því að ég sé bara tilbúinn að loka þessum kafla, komið ágætt...

En áður en allt þetta gerist mun lærdómur og aðrar útréttingar eiga hug minn allan...

Góðar stundir 


Spánn

Farinn í kulda og trekk á Spáni, kem aftur í næstu viku...

Góðar stundir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Fréttir úr kanalandi

Höfundur

Hjörtur Júlíus Hjartarson
Hjörtur Júlíus Hjartarson
Stjórnmálafræðingur og ríkisstarfsmaður
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Sigrún í La Traviata
  • Þursaflokkurinn
  • Heimir og Faxi í árdaga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband