Laugardagur, 14. apríl 2007
Tiny Dancer
Hef eytt síðustu tveimur kvöldum á danssýningum hjá Hjördísi minni sem er hluti af árlegri uppsetningu skólans. Needless to say bar dóttir mín af í glæsileika og fimi ;) Hjördís var lengi afar ´klunnaleg´í fimaburðum, stór og sterkbyggð með ríkjandi strákagen í sér. Tveggja ára dansnám hennar hefur hinsvegar breytt þessu á afgerandi hátt. Maður varð bara hálfklökkur að sjá stelpuna sína svona flinka og flotta...Vonast til að henda inn nokkrum myndum af tiny dancer fljótlega.
Annars er vitlaust veður að ganga yfir Alabama þessa stundina. Þrumur og eldingar útum allt og laust einni niður hér rétt við húsið áðan með tilheyrandi látum. Ég og Hjördís urðum satt að segja svolítið skelkuð, þrátt fyrir að hafa reynt ýmislegt í þessum efnum.
Fyrirhuguð er ´strákaferð´í kvöld upp til Auburn sem er háskólabær hér rétt hjá. Bjarki hefur haft veg og vanda að þessari ferð sem verður vonandi skemmtileg. Ætlunin var að spila golf á einum af flottustu völlum Alabama sem er þarna í nágrenninu, en það er lítið vit í því að sveifla golfkylfum í þrumuveðri. Bjarki ítrekaði þá staðreynd fyrir okkur drengjunum að senn liði að endalokunum á dvöl okkar hér ytra, margra íþm, og kvöldið í kvöld væri það síðasta sem við gætum allir gert eitthvað saman. Tilefnið er því ærið.
Get lítið sagt um leik Þróttar og ÍA frá í gær. Frásagnir herma að sigurinn hafi verið síst of stór og að mínir menn hafi lítið burðugt sýnt. Það sem vakti hinsvegar athygli mína var að Skaginn skoraði fjögur mörk og ´maskínan´sjálf var með núll. Hvað veldur, spyr ég??
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 11. apríl 2007
Lítið eitt
Ekki mikið að frétta héðan úr kanalandi. Fór í skýrslutöku í gær vegna árekstursins í síðustu viku. Lögregluþjónninn sem tók skýrsluna sagði mér að af gögnum hennar að dæma væri varla meira sem hún gerði í þessu máli, mín megin í það minnsta, veit ekki með hina aðilana...Leiðindamál allt saman sem maður hefði glaður vilja komast hjá.
Fórum The Decemberists í gær í Birmingham. Frábærir tónleikar í frábæru tónleikahúsi- mikil og góð stemmning. Fjórar stjörnur. Nánari krítik kemur kannski seinna.
Síðan er það Spánn í næstu viku. Alltof mikið að gera fram að því. Mörg verkefni sem þarfa að klára og allt vesenið við að pakka dótinu sínu niður. Gámurinn fer á meðan ég er á Spáni og þarf því allt að vera klappað og klárt fyrir brottför. Þetta hefst á endanum.
Síðan er það ÍA-Þróttur á föstudaginn. Missir að sjálfsögðu af þeim leik, því miður. Vonandi mætast þessi lið aftur í sumar. Ég spái 3-2 sigri minna manna í Þrótti. Andri setur bæði fyrir Skagann...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 8. apríl 2007
Árekstur
Það er kaldhæðni örlaganna að síðasta færsla hjá mér bar fyrirsögn sem vísaði í að maður yrði að passa sig hér ytra- í ljósi þess að ég lenti í hörðum árekstri á fimmtudaginn. Engar áhyggjur, það slasaðist enginn alvarlega-enginn í mínum bíl allavega, en með mér voru Siggi og Gústi stóri. Luminan endaði þó sína lífdaga þar og þá...
Slysið gerðist með þeim hætti að ég var að fara yfir gatnamót, á grænu ljósi-nota bene- þegar lítill jeppi ekur í veg fyrir mig frá hægri, ég negli niður en næ samt ekki að koma í veg fyrir að ég stuði afturendann á honum. Höggið var töluvert, Luminan fór heldur illa og verður varla við hana gert úr þessu. Hinn bíllinn er hinsvegar handónýtur. Hann endaði á hvolfi og meiddust tveir farþegar í bílnum eitthvað. Ekki alvarlega en þó það mikið að ráðlagt þótti að flytja þau á sjúkrahús til frekari skoðunar.
Ekki er búið að dæma neitt í þessu máli það verður að teljast líklegt að ég verði dæmdur í rétti, þó líklega verði ég sektaður fyrir að vera yfir hraðatakmörkunum. Annað sem tveir lögregluþjónar sögðu mér á slysstað og ætti að styðja mitt mál var að áfengisflöskur fundust í hinum bílnum og grunaði löggan þau um ölvun við akstur.
Frekari frétta er að vænta á næstu dögum...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 4. apríl 2007
Mann verður að passa sig
Ég fékk smá (bara smá) hnút í magann í gær þegar ég las fréttina um skotárásina í höfuðstöðvum CNN í Atlanta þar sem ung kona var skotin til bana og árásamaðurinn síðar yfirbugaður. Ég var einmitt í skoðunarferð á þessum stað fyrir ekki alls löngu, sem gerir þetta einhvernveginn ögn raunverulegra. Það er nefnilega þannig að manni finnst alltaf eins og öll þessi morð og skotbardagar megi auðveldlega forðast- bara halda sig frá ákveðnum bæjarhlutum og vafra ekki einn um eins og fífl að kvöldi til. Þessi atburður í CNN húsinu í gær sýnir hinsvegar að skotgleði kanamanns á sér engin takmörk, engin staður né stund gerir það að verkum að þú ert algjörlega óhultur. Engin ný sannindi hég á ferð en ágætt að minna sjálfan sig á það öðruhvoru. Já, og ellefta morð ársins var framið hér í Montgomery um helgina...
Það er einkar heppilegt að Íranir skyldu akkúrat ákveða að sleppa bresku sjóliðunum þegar ég hugðist fara tjá mig um málið. Það sem vildi benda á var sú umræða sem átt hefur sér stað hér í USA á meðal hægri-manna. Um leið og Íranir höfðu handsamað Bretana vildu "sérfræðingarnir" á hægri vængnum að breska stjórnin réðist inn í Íran. Viðbrögð Tony Blair þar sem hann talaði alltaf um að hann vildi láta reyna á diplómatískar lausnir áður en eitthvað annað yrði reynt, var merki um hversu miklir aumingjar Bretarnir voru. Ekkert nema harka og vopnavald myndi frelsa hermennina. Samningaviðræður eru bara fyrir vesalinga. Það sá það hinsvegar hver heilvita maður að Íran ætlaði alltaf að nota þetta mál til að bæta ímynd sína á alþjóðavettvangi- svona sýna heimsbyggðinni að þeir geti alveg verið sanngjarnir og að við þá sé í raun hægt að semja. Hvort það hefur tekist eður ei ætla ég ekki að leggja dóm á.
Ef um bandaríska sjóliða hefði verið að ræða þá væri Bandaríkin líklega komin í stríð við Íran núna.
Þetta var hressandi færsla ;)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 3. apríl 2007
El Gordo
Jæja, eitt og annað hefur á daga oss drifið undanfarið.
Ég og Óli naut erum búnir að bóka miða til Spánar í æfingaferðina hjá röndótta stórveldinu úr Laugardalnum. Leggjum af stað um hádegisbilið, 17.apríl frá Montgomery og komum heim níu dögum seinna. Alls eru þetta fjögur flug hvora leið; MGM-Atlanta-Madrid-Alicante. Ferðalagið tekur hátt í sólahring með öllu sem er í það mesta til þess að maður nenni að standa í þessu yfirleitt. Það er einungis sú staðreynd að ég verð að mæta í þessa ferð til að komast í almennilegan bolta, með góðum leikmönnum en það er ekki um auðugan garð að gresja þessa dagana hjá knattspyrnuliði AUM. Ungir Ameríkanar skipa hópinn að stærstum hluta nú um stundir þar sem 80 prósent af byrjunarliðinu frá í fyrra er horfið á önnur mið af ýmsum ástæðum. Þó holdarfarið sé í ágætu standi miðað við árstíma þá sá Kiddi bró ástæðu til að slá um sig með spænskukunnáttu sinni og um leið skjóta á mig (á uppbyggilegan hátt að sjálfsögðu). El Gordo heyrðist hinumegin á línunni þegar ég svaraði og eftir mikið smápjötlutíst gubbaði Kiddi því útúr sér að þessi spænsku orð útleggjast á íslensku "sá feiti"...Oft hefur tilefnið verið meira til að nota þess orð heldur en nú, engu að síður þarf aðeins að spýta í lófana þessar sex vikur sem enn eru í mót. Að auki verð ég að fara læra nöfnin á nýju liðsfélögum mínum, gekk ekki alveg nógu um vel jólin af einhverjum ástæðum.
Fékk þær gleðifregnir um helgina að von sé á gestum til mín á útskriftardaginn. Hjörtur og Stína (aka ma og pa) ætla leggja Ameríku undir fót í annað sinn á lífsleiðinni og fylgjast með einkasyninum taka við langþráðri gráðu. Aukinheldur ætlar ástkær amma mín að "skutlast" yfir hafið með þeim. Ég hef "suðað" í ömmu í fjögur ár að koma og heimsækja mig hingað út og núna verður af því, mér til mikillar gleði- svo vægt sé til orða tekið. Hjördís mín er þó heldur vonsvikin yfir því að "litli" bróðir, Hákon kemur ekki sökum anna í FVA.
AUM spilaði tvo leiki um helgina. Reyndar voru þeir ekki nema klukkutíma hvor en allt heppnaðist þetta ágætlega. Liðin sem við mættum voru heldur slök, undir eðlilegum kringumstæðum, með fullskipað lið, hefðum við unnið með 5-6 mörkum í það minnsta. Í staðinn enduðu leikirnir báðir leikirnir með jafntefli, 2-2 sá fyrri og 1-1 sá seinni. Ég skoraði bæði í fyrri leiknum, það seinna með því að fylgja eftir eigin vítaspyrnu. Veit ekki hvað er að gerast í þeim málum...Seinni leikurinn var nokkuð skrautlegur. Lentum snemma 1-0 undir og áttum í stökustu vandræðum það sem eftir var. Undir lok leiksins fékk undirritaður að líta rauða spjaldið fyrir litlar sem engar sakir ;) Manni færri tókst AUM liðinu að skora og var það mark ekki af lakari taginu. Hallgrímur, sem alla jafnan eru mislagðir fætur, skoraði af hvorki meira né minna en 55 metra færi! Hann sagði sjálfur að hann hefði séð markmanninn standa ögn of framarlega þegar boltinn kom skoppandi til hans við miðlínuna. Það var því ekkert annað að gera en að "láta vaða" með fyrrgreindum afleiðingum. Boltinn skoppaði svona laglega yfir markvörðinn áður en hann endaði í netinu. Snilldarmark!
Þrennir tónleikar framundan. Já, nú skal síðustu stundirnar mjólkaðar til hins ýtrasta. The Decemberists ríða á vaðið innan skamms, því næst er það gamla kempan Elton John og til að loka túrnum er það Modest Mouse. Mikil skemmtun framundan.
Vil að lokum benda á fjóra nýja bloggvini hér til vinstri. Allir voru þeir svo almennilegir að samþykkja mig sem "vin" þegar eftir því var leitað. Fyrir þá sem ekki vita eru þetta þeir bræður Hafsteinn og Lúðvík Gunnarssynir Haus ;) (prívat) Báðir afar skarpir drengir og góðir pennar eftir því. Blaðamaðurinn ógurlegi, Sigurður Elvar Þórólfsson er sá þriði og Orri Harðar er síðan sá fjórði en hann þarf varla að kynna enda mikið celeb þar á ferð, eins og Gunnlaugur myndi orða það. Ég er hinsvegur engu nær hver þessi SAS er...
Að endingu læt ég fylgja með eina mynd sem sýnir vel hversu seint maður ætlar að læra af eigin mistökum. Er núna að ljúka mínu fjórða ári hér ytra undir brennheitri Alabamasólinni og ætti að vera þekkja hversu miskunnarlaus hún getur verið fyrir föla íslenska húð. En...
Magi og bringa fengu sama fallega roða
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 28. mars 2007
Modest Mouse
Nú hefur Hógværa Músin (e.Modest Mouse) bæst í hóp hljómsveita sem munu njóta þeirrar gæfu að fá undirritaðann á tónleika hjá sér. Afar spenntur fyrir þessum tónleikum enda frábær hljómsveit þarna á ferð. Sagði frá því um daginn að The Decemberists væru næstir á dagskrá og nú er farið að styttast skemmtilega mikið í þá. Síðan verður Elton John með tónleika í Birmingham í byrjun maí. Ætla reyna fá miða á kallinn, örugglega skemmtilegir tónleikar.
Lítið hefur heyrst af komu Þorsteins Inga hingað til USA eftir hástemmdar yfirlýsingar til að byrja með. Ég er farinn að óttast að Þorsteinn ætli að vera sjálfum sér líkur...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 26. mars 2007
Anarkistaflokkurinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. mars 2007
SUS-sssss
Annars var þessi grein hér og hér soldið í uppáhaldi.
Í þeirri seinni gefur hann okkur lausnina á málefnum öryrkja...engin ríkisafskipti. Fyrirtæki munu stíga fram og gefa þeim peninga af því að almenningur mun "krefjast" þess. Volla! málefni öryrkja afgreidd!
Það er í sjálfu sér hálf kjánalegt að vekja athygli á þessum greinum og um leið gefa það í skyn að ungir Sjálfstæðismenn séu allir sama sinnis og þessi umræddi aðili. Kunningi minn og sveitungi, Borgar Þór Einarsson skrifar til að mynda á vefriti sínu afar góða grein um málefni aldraðra og er ég sammála honum að mestu leyti um það sem þar kemur fram. Borgar segir m.a. í greininni að með því draga úr tekjutengingu lífeyrisgreiðslna til aldraðra sé hagsmunum þeirra betur gætt. Þessu er ég sammála, þó ekki væri nema til að halda þeim sem vilja og geta lengur úti á vinnumarkaðnum. Hitt er síðan annað mál hvort grunngreiðslan eigi að vera hærri heldur en hún er í dag. Húsnæðismál aldraðra er líka eitthvað sem verður að lagfæra og bæta. Greinina hans Borgars má annars lesa hér .Bloggar | Breytt 22.3.2007 kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. mars 2007
Sannleikskornum sáð
Einhver aðili vakti athygli mína á þeirri umræðu sem nú á sér stað á spjallsíðu míns ástkæra félags Knattspyrnufélagi ÍA og þá sérstaklega hvað ágætur formaður knattspyrnudeildarinnar ritar þar. "Eyþór G" vekur athygli á bágu ástandi liðsins, þ.e. lélegum úrslitum undanfarið og áhyggjum sínum yfir þeim. Nefnir að kannski hefði átt að bjóða mér og Bjarka samning fyrir komandi tímabil. Ekki ætla ég að leggja dóm á það hvort það hefði komið til að breyta einhverju næsta sumar, á góðan eða slæman hátt.
Svar Gísla formanns er hinsvegar athyglisverðara og akkúrat í þeim anda sem ég átti von á hvað mig persónulega varðar. Ég er sammála honum um allt sem fram kemur er varðar að sýna þolinmæði og að miklar breytingar eigi sér nú stað á leikmannahópnum sem koma til með að skila sér á komandi tímabilum- líkast til þó öðrum en því næsta. Sá hluti sem snýr að mér er nákvæmlega það sem ég grunaði að yrði notaður í þeirra þágu, þ.e. að mér hafi verið boðinn samningur sem ég hafnaði. Þeir hafi í raun verið allir af vilja gerðir til að halda mér en ég hafi kosið að leita á önnur mið þrátt fyrir það. Ég hef alltaf sagt að ég vildi ekki tala um það á hvaða forsendum ég ákvað að fara frá ÍA og í Þrótt nema þessi staða kæmi upp að brotthvarf mitt hefði algjörlega verið mín ákvörðun einhliða.
Sannleikurinn er sá að Guðjón Þórðarson hafði engan áhuga, ekki nokkurn á að semja við mig eða Bjarka. Eini munurinn á mér og Bjarka að ég var ekki eins tilbúinn til þess að yfirgefa ÍA eins auðveldlega og Bjarki- og Bjarki vildi vera áfram hjá ÍA bara svo það sé á hreinu. Ég reyndi ítrekað að ná í Guðjón til að fá hans skoðanir á því hvort bjóða ætti mér nýjan samning eða ekki. Hann kaus að svara ekki símtölum mínum né þeim skilaboðum sem ég skildi eftir hjá honum. Eftir ítrekaðar tilraunir sem engan árangur báru snéri ég mér að Gísla til að fá einhver svör. Gísli sagði mér þá að Guðjón væri tilbúinn að "skoða" mig og Bjarka þegar við kæmum heim í vor og meta ástand okkar og í kjölfarið myndu þeir láta okkur vita hvort samningur yrði lagður á borðið eða ekki. Þessum skilmálum var Bjarki ekki tilbúinn að mæta, enda gjörsamlega ómögulegt að taka áhættuna á því að maður fái hugsanlega samning í byrjun maí þegar öll lið eru búin að klára sín leikmannamál. Ég var sama sinnis en vildi þó reyna frekar hvort ekki væri grundvöllur fyrir því að gera samning fyrr.
Gísli sagði mér þá að það væri möguleiki að setja eitthvað saman, eitthvað sem yrði þó mun minna en ég hafði haft árið á undan. Það var ég alveg tilbúinn að skoða. Ég vil taka það fram ég hef aldrei verið á neinum stjörnusamning hjá ÍA, hef aldrei verið í samningaviðræðum per se við þá, heldur hef ég alltaf skrifað undir það sem þeir hafa talið sanngjarnt að ég fái. Ég hef oftsinnis fengið "betri" tilboð frá öðrum félögum en alltaf hafnað þeim af því að ég vildi hvergi annarsstaðar vera en á Skaganum, spilandi fyrir mitt félag. Ekki svo að skilja að ég telji að ég hefði átt að fá betri samninga en ég fékk þau ár sem ég var hjá ÍA. Ég var ánægður með það sem ég fékk.
Gísla svaraði ég í fyrstu þannig að það væri til lítils að setja saman samning áður en ég talaði við Guðjón og heyrði hans áform um hvaða hlutverki ég ætti að gegna í liðinu. Það gekk ekki eftir. Gísli nefndi þó að Guðjón hefði sagt að ég væri mjög "góður í hópi fyrir liðsandann" (?!). Ef þetta átti að merkja það að mitt hlutverk yrði að skemmta strákunum á bekknum þá hafði ég ekki mikinn áhuga á því...
Eftir slatta af símtölum og póstsendingum okkar Gísla á milli gerði hann mér tilboð þrátt fyrir að ég hefði ekki heyrt í Guðjóni eins og ég taldi forsenda allra samningaviðræðna. Ekki ætla að fara nákvæmlega út í þær tölur sem samningurinn hljóðaði upp á, það tel ég vera einum of mikið. Það sem ég vil hinsvegar segja um samningstilboðið er það að ég átti að fá ákveðna upphæð (ekki háa) ef ég yrði ég byrjunarliðinu í amk 9 leikjum. Ef það gengi hinsvegar ekki eftir þá fengi ég ekki neitt. Vitandi það að Guðjón hefði ekki mikinn áhuga á að fá mig þá hljómaði þetta ekkert alltof vel fyrir mig. Menn geta sagt að ég hafi hafnað tilboði frá ÍA en að sama skapi verða þeir sömu að sjá það að ég gat ekki tekið þessu tilboði. Og það vissu forráðamenn ÍA mætavel. Þegar ég sagði Gísla að ég gæti ekki tekið þessu tilboði þá var bara "já, ok, gangi þér vel.."
Nú er ég ekki að skrifa þennan pistil til að hnýta í neinn, síst af öllu Knattspyrnufélag ÍA né heldur Gísla. Ég og Gísli erum ágætis félagar og hann kom aldrei fram við mig í þessum viðræðum á neinn annan hátt heldur fagmannlega og heiðarlega. Ég vildi bara koma þessu á framfæri fyrst það er verið að láta það líta þannig út eins og ég hafi hafnað ÍA eftir að þeir gengu á eftir mér. ÍA vildi ekki hafa mig áfram og sýndu það greinilega. Og það er bara þannig. Guðjón er sá sem stjórnar þessu liði og hann verður auðvitað að móta það eins og hann telur best. Ég er ekkert leiður eða sár yfir því að vera farinn frá ÍA. Ég spilaði með mínu liði í 7 ár yfir 200 leiki sem er meira en ég hafði nokkru sinni látið mig dreyma um. Allt hefur sinn tíma og ég held sannast sagna að tími minn hjá ÍA hafi verið liðinn og ráð að halda á önnur mið. Ég vil hinsvegar ekki að ég sé notaður sem eitthvað dæmi um það hvernig leikmenn ÍA haldi á önnur mið eins og ekkert sé þegar liðið gæti hugsanlega nýtt krafta þeirra eitthvað áfram. Hefði ÍA virkilega viljað hafa mig áfram þá hefði ég auðvitað verið áfram. Svo einfalt er það.
Lifið heil
Bloggar | Breytt 22.3.2007 kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Með tóma vasa
Kom í fyrradag heim frá Flórída þar sem ég, Hjördís mín og Blær eyddum helginni í góðu yfirlæti. Hitastigið var kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir en náði þó tuttugu gráðum eða svo. Ég og stelpurnar skemmtum okkur hið besta þó við hefðum öll vijað vera bara ögn lengur.
Vatn og núðlusúpa er það eina sem maður hefur efni á þessa dagana eftir afar dýran mánuð og vetur til þess að gera. Maður þraukar þessa tvo mánuði sem eftir eru...
Hér erum við feðginin í minigolfi, sem ég burstaði, nota bene.
Þær voru ekki vitund smeykar þær stöllur í þessu morðtóli. Þær eru hífðar upp í ákveðna hæð sem virðist vera frá mér séð um 800 metrar en er eflaust eitthvað minna, þar uppi er kippt í spotta og rólan fellur og sveiflast til og frá. Til eru betri útskýringar á þessu tæki en ég nenni ekki að rembast við þetta frekar.
Sjá má stærri útgáfur af myndunum með því að smella á þær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Fréttir úr kanalandi
Myndaalbúm
Fólk
Gamla síðan
Skólinn minn
Skemmtileg lesning
Alabamafólk
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar