Fimmtudagur, 15. mars 2007
Spring Break
Jæja, kominn aftur til Montgomery eftir nokkurra daga fjarveru. Skellti mér til Puerto Rico í viku eða svo. Alveg meiriháttar ferð. Ferðasaga kemur vonandi á næstunni...
Svo erum við Hjördís að fara í sólina á Flórída á laugardaginn í nokkra daga. Það verður örugglega mjög skemmtilegt. Eftir þessar tvær ferðir verður maður svo á kúpunni að maður þarf að leita uppi súpueldhúsin hérna í borg...
Nú eru tæplega tveir mánuðir í útskrift. Úff, það verður mikið að gera þangað til. Mikið af verkefnum, prófum, fyrirlestrum o.s.frv. Svo auðvitað að pakka öllu draslinu sem maður hefur sankað að sér. Þetta hefst vonandi á endanum.
Þorsteinn Ingi hefur boðað komu sína hingað um miðjan apríl. Verður honum fagnandi tekið! Ekkert hefðbundið skataprump Steini!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 7. mars 2007
Tap
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. mars 2007
Síðasti leikurinn?
Bloggar | Breytt 7.3.2007 kl. 03:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 1. mars 2007
Vitlaust veður í Alabama
Bloggar | Breytt 2.3.2007 kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. febrúar 2007
Atlanta-dagur
Ekki mikið svosem að frétta úr kanalandi þessa dagana. Fór um síðustu helgi með Hjördísi mína og Blævi sætu hans Bjarka til Atlanta í dagsferð að skoða eitt og annað sem þessi ágæta borg hefur upp á að bjóða. Fórum í sædýrasafnið sem ku vera það stærsta í heimi, hvorki meira né minna, og skemmtum við okkur hið besta. Heldur var þó mikið af fólki og troðningur þ.a.l. töluverður. En gaman engu að síður. Höfuðstöðvar Coca-Cola eru í Atlanta en þar var einmitt kók fyrst bruggað fyrir rúmri öld eða svo. Þeir eru með sitt safn í miðborginni og þangað héldum við í skoðunarferð. Nokkuð áhugavert og ýmislegt að sjá, eins og kókflösku frá Íslandi. Vei! Þjóðarstoltið náði hámarki þegar maður las á eina litla kókflösku, "skrásett vörumerki". Kláruðum síðan daginn með því að fara í bíó í Montgomery. Skemmtilegur dagur bæði fyrir mig og þær stöllur.
Stefnir allt að ég haldi til Spánar í æfingaferð um miðjan apríl til móts við liðsfélaga mína í Þrótti. Ég og Óli naut förum að öllum líkindum saman sem ætti að gera hið langa ferðalag þolanlegt. Var einmitt að skoða flugin sem við þurfum að taka til að komast á áfangastað og reiknast mér það til að ferðalagið í heild muni aldrei taka minni tíma en sólahring. Úff, alveg spurning hvort maður nenni þessu...
Minn gamli félagi, Sigurbjörn, commentaði á síðustu færslu hjá mér þar sem hann rifjar upp ummæli Geira Harðar frá í den. Jú, ég held að það sé rétt hjá þér Sibbi að Geir lét þessi orð falla á sínum tíma og vöktu þau skiljanlega mikla lukku ;)
Þorsteinn commentar helst ekki nema skjóta ögn á æskulýðsfulltrúann í Reykjanesbæ og yfirleitt svarar Hafþór í sömu mynt. Steini rifjaði upp classic-moment þar sem Hafþór söng hástöfum í miðborg Reykjavíkur fyrir einum 16-17 árum, ef ég man rétt, og var níddur fyrir vikið af ókunnri konu. Vissulega skemmtilegt atvik og kemur ekki á óvart að Steini rifji það upp í ljósi þess að Hafþór var punchlinið í sögunni. Kemur hinsvegar á óvart að Haffi skuli láta þetta allt saman óátalið. Koma svo Habbó!
Bloggar | Breytt 1.3.2007 kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Ekki fréttir
Er ég einn um það að finnast allir fjölmiðlar vera yfirfullir af fréttum um ekki neitt? Fréttir af hárlausri Britney Spears í meðferð hafa valdið ótrúlegu fjaðrafoki hér í kanalandi og eru sálfræðingar og aðrir "sérfræðingar" fengnir til að "meta" ástandið. Veit auðvitað ekki nákvæmlega hvernig umfjöllunin á Íslandi er um þetta allt saman, kannski er hún lítil sem engin. Engu að síður hlýtur hún að vera einhver vegna þess að ég rakst á lítinn stubb í gær um það að Paris Hilton hefði verið í partýi með meikklessu á nefinu án þess að taka eftir því...hmmm. Í Bandaríkjunum eru fleiri en ein stöð algjörlega helguð "fréttum" af fræga fólkinu. Þegar Tom Cruise og frú voru í þann mund að fara gifta sig fyrir nokkru, var tveggja tíma hringborðsumræða á einni stöðinni um brúðkaupið. Það sem ég sá af þættinum var kómískt svo ekki sé meira sagt. Fólk ræddi grafalvarlegt um allar hliðar komandi brúðkaups og enginn sprakk úr hlátri (!?). Ég ímynda mér að þetta sé sett upp þessu formi svo fólki finnist það ekki bara vera góna inn í líf fræga fólksins, heldur sé þarna í raun og veru "alvöru" fréttir á ferð.
Auðvitað skiptir það engu máli fyrir mig hvort fólk hefur áhuga á þessu eða ekki, ég laumast alveg sjálfur til að horfa stóreygður á þetta bull. Ég tel mig þó geta greint á milli alvöru frétta sem máli skipta og alls hins. Margir Bandaríkjamenn geta það hinsvegar ekki og því eyða þeir allt of mikilli orku í ekki neitt í stað þess að takast á við þau vandamál sem virkilega krefjast úrlausnar...
Já, og ég er búinn að eignast bloggvin! Vissi aldrei hvernig maður eignaðist svona vin fyrr en SAS óskaði eftir vináttu. Þetta virkar þannig að maður fær (eða sendir) meil um að maður vilji vera bloggvinur, sem er síðan hafnað eða samþykkt. Ekki veit ég neitt um þennan SAS náunga en ég var sko ekki lengi að samþykkja hann, allir vilja jú eiga vini ;) Af þeim bloggsíðum sem ég kíki reglulega á virðist það skipta töluverðu máli upp á þinn sósíalstatus í bloggheimum hverjir eru bloggvini þínir. Enn sem komið er á ég bara einn vin, og um hann þykir mér afar vænt um, en ég skal komast á toppinn, eiga fullt af vinum og meika það í þessu hráa, kalda bloggheimi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 18. febrúar 2007
Kekic í Víking!
Var rétt í þessu að lesa það á hinni ágætu netsíðu fótbolti.net að liðsfélagi minn til skamms tíma, Sinisa Kekic, væri á leið í Víking. Ég veit ekki hvernig á að meta þessar fréttir. Get ekki sagt að þetta sé mikið áfall þó vissulega sé aldrei gott að sjá á eftir jafn hæfileikaríkum fótboltamanni og Kekic er. Það sem ég hinsvegar sá af honum um jólin á meðan ég æfði með Þrótti gaf ekkert sérstaklega góð fyrirheit um það sem koma skyldi. Kekic var mjög áhugalaus á þeim æfingum sem hann sá sér fært um að mæta á og virtist helst vilja vera gera eitthvað allt annað. Ég sé því ekkert sérstaklega mikið eftir honum. Að auki tel ég Þróttaraliðið vera mjög vel mannað á miðjunni. Brotthvarf Kekic ætti að opna dyrnar fyrir vini mínum Jóhanni Hreiðarssyni til að taka þessa stöðu sem framliggjandi miðjumaður (vonandi fyrir aftan mig) en samstarf okkar hefur gengið með eindæmum vel þau þrjú ár sem við spiluðum saman í AUM.
Talandi um Jóhann (aka Jóhannes Harðarson) þá er drengurinn farinn heim til Íslands for good. Án þess að fara nákvæmlega ofan í hans plön þá hentaði það hans framtíðaráformum best að fara heim á þessum tímapunkti. Jóa verður sárt saknað hér ytra þessa mánuði sem eftir eru af önninni, ekki síst af herbergisfélaga hans, Elvari the educator, sem einn heima situr og grætur sig í svefn og sína daglegu lögn ;)
Ákvörðun mín að fara í Þrótt á sínum tíma hefur réttlætt sig enn frekar síðustu vikur. Tel það næsta víst, miðað við spilamennsku arftaka míns í Skagaliðinu, Andra Júll #9, að hlutskipti mitt í allt sumar hefði verið að sitja á tréverkinu með Jóni Vilhelm ;) Drengurinn er á miklu rönni þessa dagana og raðar inn mörkunum. Nú er bara að bíða og vona að Gauji og co. sjái sóma sinn í því að gefa Andra þau tækifæri sem hann á skilið þegar kemur að alvörunni en ekki spandera fúlgu í einhvern áhugalausan útlending sem lætur sig hverfa af landinu um leið og tækifæri gefst...Annars verður Jón Þór líka að sjá til þess að litli bróðir haldi sig á jörðinni, auðvelt að gleyma sér í velgengninni, kannast við það ;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
"Markaðssetningin er lykillinn"
Fór á fyrirlestur í gær uppi í skóla þar sem viðfangsefnið var bandaríski herinn frá ýmsum sjónarhornum. Fyrirlesararnir voru fjórir yfirmenn úr hernum og fóru þeir víðan völl um þau málefni sem eru bandaríska hernum hvað hugleiknust nú um stundir. Einn ræddi um samskipti forsetans og heryfirvalda, annar um hvernig það væri fyrir fjölskyldufólk að vera hermenn, þriðji bullaði eitthvað ómerkilegt en sá síðasti fannst mér áhugaverðastur. Hann talaði mjög hreint og beint um það hversu illa gengi hjá Bandaríkjamönnum að breyta ímynd sinni útá við, og þá sérstaklega í Mið-Austurlöndum og Evrópu. Taldi það afar brýnt að þeir [Bandaríkjamenn] kæmu þeirri staðreynd á framfæri að þeir væru að eyða billjónum dollara í hjálparstarf á því svæði þar sem hatrið á þeim er hvað mest, t.a.m. í Palestínu. PR-mennskan væri greinilega það sem væri að, ekkert annað. Bandaríkjamenn væru í Palestínu einni að eyða um einni billjón dollara í hjálparstarf og því óskiljanlegt að fólki þar líkaði svo illa við þá. Tók það ekki fram að hundraðföld sú upphæð fer árlega til Ísrael, m.a. annars í formi vopna sem notuð eru til að myrða Palestínumenn. Og þessi billjón sem fer til Palestínu eru ekki miklir peningar fyrir stórveldið Bandaríkin. Á síðasta ári eyddi Bandaríkjastjórn 1,2 billjónum dollara í auglýsingar sem hafa það markmið að fjölga hermönnum...Billjón er ekki mikið þegar Bandaríkin eru annarsvegar.
Þessi ágæti hermaður sagði einnig að ekkert land í heiminum gæfi jafnmikla peninga til hjálparstarfs og Bandaríkin. Það er alveg rétt ef aðstoðin er mæld í peningaupphæðinni einni en hinsvegar eru Bandaríkjamenn fjarri því að toppa listann ef horft á upphæðina í hlutfalli af þjóðarframleiðslu landsins. Sú mælieining er almennt notuð þegar metin er framlag þjóða til hjálparstarfs. Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr framlagi Bandaríkjamanna heldur einungis til að benda á að sú upphæðin sem bandaríska stjórnin leggur til hjálparstarfs hefur nákvæmlega engin áhrif á hagkerfi þeirra og með sanni má segja að þeir gætu gefið helmingi meira án þess að finna fyrir því.
Mér var síðan öllum lokið þegar fyrirlesturinn tók þá óvæntu stefnu að réttlæta Íraksstríðið með því að halda því ennþá fram að Saddam Hussein hefði átt kjarnorku- og eiturefnavopn og að tengsl hefðu verið á milli Íraks og Al-Quaida. Ekkert (ennþá allavega) bendir til að þessi grunur sé á rökum reistur. Áttaði mig loksins á því að ég var ekki á neinum fjárans fyrirlestri heldur bara á "sölufundi" hjá bandaríska hernum. Ekki gat maður lagt orð í belg og úthúðað þessum hermönnum fyrir það sem þau voru að segja. Þeir hafa allir sterka trú á málstaðinn að Bandaríkin séu að gera rétt og hafa helgað líf sitt í að vinna fyrir land og þjóð. Vandamálið hjá Bandaríkjamönnum í Írak, sem og annarsstaðar í heiminum liggur ekki í hermönnunum sjálfum, þeir gera bara það sem þeim er sagt, heldur hjá þeim sem stjórna hernum, Bush og hans skítakompaníi.
Vil að lokum benda því fólki sem áhuga hefur á að kynna sér hverslags subbuskapur var í gangi hjá bandarísku stjórninni mánuðina fyrir innrásina í Írak, á bók sem ég las fyrir nokkru. Bókin heitir The Greatest Story Ever Sold og er eftir mann að nafni Frank Rich. Bókin segir á ítarlegan hátt hvernig afar skipulögð blekkingarherferð var sett í gang til að selja Bandaríkjamönnum og öðrum þjóðum mikilvægi þess að ráðast á Írak. Mjög svo skemmtileg lesning.
Nóg af alvarlegu bauli í bili,
hjh
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 12. febrúar 2007
Einn og ekki neitt...
Hún Hjördís mín kvartar oft sáran undan því að hún eigi eftir að verða alltof hávaxin. Tel það nokkuð líklegt að hún verði eitthvað yfir meðallagi án þess þó að hún verði eitthvað frík. Oftar sem áður vorum við að ræða þessi mál og til þess að slá á mestu hræðsluna sagði ég að þetta yrði nú ekkert svo slæmt. "Jú, víst", segir hún og bætir við spyrjandi, "hvað heldurðu að ég verði stór?" Ég segist ekki vera viss en ætli ég giski ekki á að "þú verðir svona svipað stór og ég". Um leið og ég sleppi orðinu svarar Hjördís með hæðnisglotti, "Nú jæja, þá þarf ég ekki að hafa neinar áhyggjur lengur að ég verði of stór..."
Hún getur alveg verið svolítið skotföst ;)
Bloggar | Breytt 13.2.2007 kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 8. febrúar 2007
Teprur
Bandaríkjamenn (margir) eru furðulegir. Þeir finna alltaf eitthvað til að agnúast yfir sem engu máli skiptir en láta sig litlu varða þá hluti sem skaða þetta þjóðfélag mest, s.s. fátækt, glæpir, lélegt skólakerfi, dýrt heilbrigðiskerfi o.s.frv. Nú er það leikritið Vagina Monologues sem fer fyrir brjóstið á 'þeim'. Leikhús í Flórída er með verkið í sýningu og á skilti fyrir utan leikhúsið er einleikurinn auglýstur og að sjálfsögðu kemur nafnið á leikritinu fram. Neibb, ítrekaðar kvartanir vegna orðsins vagina bárust leikhúsinu sem á endanum varð að breyta nafninu í Hoohaa Monologues...Hressir.
On the subject. Fór að sjá Shut up and Sing! sem er heimildarmynd um köntríkvennasveitina Dixie Chicks og þau vandræði sem hljómsveitin lenti í í kjölfar ummæla aðalsöngkonunar sem hún lét falla í London nokkrum vikum fyrir innrás USA í Írak í mars 2003. Þar sagði hún þær (Dixie Chicks) skömmuðust sín fyrir það að Bush væri frá Texas, sem er þeirra heimaríki. Þessi saklausu ummæli gerðu gjörsamlega allt geðbilað hérna. Útvarpsstöðvar hættu með öllu að spila lögin þeirra, plöturnar hættu að seljast, þær voru úthúðaðar sem svikarar og fengu fjöldann allan af morðhótunum. Mjög áhugaverð og skemmtileg mynd sem sýnir vel hversu mikil múgsefjun getur skapast í Bandaríkjunum yfir nákvæmlega engu.
Snickers-auglýsingin olli töluverðu fjaðrafoki hérna, samt ekkert rosalega held ég. Frétt um þessa umdeildu auglýsingu má lesa hérHitastigið í Alabama er loksins á uppleið eftir gjörsamlega óþolandi kulda allan janúar og febrúar. Fólk heima telur mann vera mikla væluskjóðu ef maður kvartar undan kulda í Alabama en fleiri en ég geta vottað sögu mína um að það er búið að vera skítkalt hérna eftir áramót. Náði 17 gráðum í gær sem er ásættanlegt...
hilsen,
hjh
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Fréttir úr kanalandi
Myndaalbúm
Fólk
Gamla síðan
Skólinn minn
Skemmtileg lesning
Alabamafólk
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar